Peking heldur Vetrarólympíuleikana

Peking mun halda Vetrarólympíuleikana árið 2022.
Peking mun halda Vetrarólympíuleikana árið 2022. AFP/Getty Images

Vetrarólympíuleikanir árið 2022 verða haldnir í kínversku höfuðborginni Peking, en þetta var tilkynnt með viðhöfn í Kuala Lumpur fyrr í dag. Peking verður þar með fyrsta borgin til þess að halda Ólympíuleika bæði að sumri og vetri til, en Sumarólympíuleikarnir fóru fram í Peking árið 2008. 

Peking sigraði kasösku borgina Almaty í kosningu um keppnisstað, en áður höfðu Ósló, Stokkhólmur, Kraká og Lviv dregið sig úr kapphlaupinu um að halda leikana af stjórnmálalegum eða fjárhagslegum ástæðum. 

Peking var talinn ákjósanlegur staður af Alþjóða ólympíunefndinni til þess að halda leikana þrátt fyrir skort á náttúrulegum snjó sem og náttúrulegum aðstæðum til þess að stunda vetraríþróttir í borginni.

Almaty vonaðist eftir því að verða fyrsta þjóðin í Mið-Asíu til þess að halda Ólympíuleikana og stjórnvöld í Kasakstan höfðu í huga að koma sér á kortið með því að halda leikana af miklum myndarbrag.

Peking þótti samkvæmt rökstuðningi Alþjóða ólympíunefndarinnar áhættuminni vettvangur til þess að halda leikana vegna reynslu þeirra af því að halda atburði af þessari stærðargráðu. Auk þess var það mat Alþjóða ólympíunefndarinnar að Peking byði upp á meiri möguleika til þess að markaðssetja þær greinar sem verða á dagskrá leikana. Þá þótti sterkur efnahagur Kína auka líkur á því að glæsilega yrði staðið að leikunum í Peking.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert