Brasilíski grillmaturinn heillar

Anton Sveinn McKee ríður á vaðið fyrir hönd Íslands á …
Anton Sveinn McKee ríður á vaðið fyrir hönd Íslands á Ólympíuleikunum í Ríó. mbl.is/Eggert

Anton Sveinn McKee keppir fyrstur Íslendinga á Ólympíuleikunum í Ríó í dag, rétt eins og hann gerði á Ólympíuleikunum í London fyrir fjórum árum.

Anton er 22 ára gamall, sonur Helgu Margrétar Sveinsdóttur og Róberts Ólafs Grétars McKee. Hann hefur verið fremsti sundkarl Íslands síðustu ár og verið heiðraður af Sundsambandi Íslands sem slíkur á hverju ári frá og með árinu 2011. Anton keppir fyrir Sundfélagið Ægi á Íslandi en hefur á veturna keppt fyrir Alabama-háskólann í bandaríska háskólasundinu frá árinu 2013 og náð góðum árangri.

Anton fór 18 ára gamall á sína fyrstu Ólympíuleika, í …
Anton fór 18 ára gamall á sína fyrstu Ólympíuleika, í London 2012. mbl.is/Golli

Anton er handhafi sjö Íslandsmeta í 50 metra laug, og er jafn Erni Arnarsyni í þeim efnum. Anton á metin í sínum aðalgreinum í dag, 100 og 200 metra bringusundi, en hann einbeitti sér áður að lengri skriðsundum og á Íslandsmetið í 400, 800 og 1.500 metra skriðsundi. Þá á hann metin í 200 og 400 metra fjórsundi.

Anton er margfaldur Íslands- og bikarmeistari, og verðlaunahafi á Smáþjóðaleikum. Hann setti Íslandsmet sín í 100 og 200 metra bringusundi á HM í Kazan í fyrra þar sem hann komst í undanúrslit í 200 metra sundinu og hafnaði í 13. sæti. Hann komst svo í úrslit í bæði 100 og 200 metra bringusundi á EM í 50 metra laug í London í maí, og hafnaði þar í 7. og 8. sæti.

Anton hóf afreksferil sinn sem skriðsundsmaður og á Íslandsmetin í …
Anton hóf afreksferil sinn sem skriðsundsmaður og á Íslandsmetin í 400, 800 og 1.500 metra skriðsundi. mbl.is/Golli

Þetta eru aðrir Ólympíuleikar Antons en hann keppti í 1.500 metra skriðsundi og 400 metra fjórsundi í London 2012 og féll þá úr keppni í báðum greinum í undanrásum.

Nám: Ég á eitt ár eftir í upplýsingafræði við Alabama-háskóla.
Fyrri störf: Sundið hefur bara verið mitt starf.
Uppáhaldsmatur: Lasagne heima hjá mömmu.
Matur í ólympíuþorpinu: Það er brasilíska grillið. Það er aðeins öðruvísi en ofeldaði maturinn sem er þarna víða.
Mest spennandi á ÓL, utan sunds: Fyrir utan það að sjá alla Íslendingana keppa er ég spenntastur fyrir því að fara á handboltann. Ég er kominn með miða á einn leik þar. Maður fær ekki að sjá mikið af handbolta í Bandaríkjunum.

Dagskrá Antons á ÓL í Ríó:
100 m bringa, undanrásir: 6. ág. kl. 18.10
100 m bringa, undanúrslit: 7. ág. kl. 02.08
100 m bringa, úrslit: 8. ág. kl. 01.47
200 m bringa, undanrásir: 9. ág. kl. 16.50
200 m bringa, undanúrslit: 10. ág. kl. 02.03
200 m bringa, úrslit: 11. ág. kl. 01.00

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert