Á meiri orku inni í kvöld

Hrafnhildur Lúthersdóttir.
Hrafnhildur Lúthersdóttir. mbl.is/Eggert

„Ég held að þetta hafi verið mjög fínt. Í kvöld get ég kannski byrjað hraðar, ég átti eitthvað inni þegar ég kláraði sundið, en ég sé til hvað ég geri,“ sagði Hrafnhildur Lúthersdóttir við mbl.is í dag.

Hrafnhildur hafði þá nýlokið við að tryggja sér sæti í undanúrslitum 200 metra bringusunds, rétt eins og hún gerði í 100 metra bringusundi en þar fór hún alla leið í úrslit og endaði í 6. sæti. Fyrir þessa Ólympíuleika hafði engin íslensk sundkona komist í undanúrslit á Ólympíuleikum, en Hrafnhildur hefur nú gert það tvisvar og Eygló Ósk Gústafsdóttir einu sinni.

Hrafnhildur náði 10. besta tímanum í undanrásum 200 metra sundsins í dag, en hún synti á 2:24,43 mínútum í 3. riðli af fjórum.

„Ég hugsaði bara með mér að þetta væru fjórir riðlar, og tveir kæmust áfram, sem þýddi að ef ég yrði ekki síðust í mínum riðli ætti ég alveg að geta komist áfram. Þetta gekk upp. Ég hefði getað synt hraðar, en það er líka gott að eiga eitthvað inni. Ekki það að ég hafi verið að gera það viljandi, eins og sumir gera, en ég á þá meiri orku inni í kvöld. Ég hefði getað farið hraðar og það kemur vonandi í kvöld,“ sagði Hrafnhildur.

Óvenjulegt að vera góður í báðum sundum

Það er ekki svo algengt að keppendur standi eins framarlega og Hrafnhildur í bæði 100 og 200 metra bringusundi. Hún ætlar sér hins vegar að synda til úrslita í báðum greinunum:

„Það er mjög óvenjulegt að vera góður í báðum sundum, og margar sem eru bara góðar í öðru þeirra, en svo eru sumar eins og ég [sem ná langt í báðum],“ sagði Hrafnhildur, en hvaða væntingar hefur hún til kvöldsins?

„Það er aldrei að vita hvað gerist. Ég er svolítið hissa á úrslitunum því það eru stelpur sem eiga mikið betri tíma sem eru ekki að synda svo hratt hérna. Þetta fer eftir því hver er með hausinn í lagi og það getur allt gerst,“ sagði Hrafnhildur, sem tekur undir að pressan sé minni nú, þegar hún hefur þegar afrekað það að komast í úrslitasund og þekkir allt í sambandi við það:

„Ég er í fyrsta lagi ótrúlega ánægð með þennan árangur hingað til, og allt annað er bara bónus. Ég get farið heim stolt sama hvernig fer núna. Það er líka gott að vera búin að fara í gegnum allt ferlið á bak við þetta, ég þekki það vel núna, og þannig verður allt þægilegra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert