Íslandsmet Anítu dugði ekki til

Aníta Hinriksdóttir ásamt Noelie Yarigo á Ólympíuleikvanginum í Ríó í …
Aníta Hinriksdóttir ásamt Noelie Yarigo á Ólympíuleikvanginum í Ríó í dag að hlaupinu loknu í riðli 4. AFP

Aníta Hinriksdóttir setti Íslandsmet í undanrásum 800 metra hlaups á Ólympíuleikunum í Ríó í dag.  Hún var með 20. besta tímann en komst þó ekki í 24-manna undanúrslitin. 

Aníta hljóp á 2:00,14 mínútum. Eldra Íslandsmet Anítu frá árinu 2013 var 2:00,49 mínútur. Það skilaði Anítu í 46. sæti fyrir fram á keppendalistanum, af 65 keppendum.

Keppt var í átta riðlum og komast tveir fyrstu keppendur í hverjum riðli áfram í undanúrslitin sem fram fara annað kvöld. Þeir átta keppendur sem náðu bestum tíma, án þess að enda í 1. eða 2. sæti síns riðils, komust einnig í undanúrslitin. Því hlaupa samtals 24 keppendur í þremur riðlum í undanúrslitunum.

Sex konur sem hlupu á verri tíma en Aníta komast áfram. Aníta var sérlega óheppin með riðil en tími hennar dugði aðeins í sjötta sæti þess riðils en hefði dugað til að vinna þrjá aðra riðla ef hægt er að segja sem svo. 

14:50 - Aníta kemst ekki áfram og þátttöku íslenskra keppenda er lokið í Ríó. En þrír íslenskir handboltaþjálfarar eru þó enn í handboltakeppni leikanna auk tveggja handboltadómara. Mbl.is þakkar fyrir sig í bili.

14:49 - RIÐILL 8. Tvær hlupu hraðar en Aníta í síðasta riðlinum en þær komast sjálfkrafa áfram út á sæti sín í riðlinum. 

14:42 - RIÐILL 7. Aftur koma slakari tímar en hjá Anítu. Besti tíminn í 7. riðli var 2:01,59 mínútur eða töluvert verri tími en hjá Anítu. Aníta er með 18. besta tímann í heildina en kemst samt ekki í 24-manna úrslitin. Flestar virðast komast áfram úr hennar riðli. 

14:37 - RIÐILL 6. Í 6. riðli voru allar hægari en Aníta. Hún var því greinilega fremur óheppin með riðil. Í þessum riðli hefði hún getað endað í fyrsta sæti miðað við tímana og komist þannig í úrslit en náði aðeins sjötta í sínum riðli. 

14.29 - RIÐILL 5. Í 5. riðli voru þrjár undir 2 mínútum og sú fjórða á 2 mínútum sléttum. Samkeppnin er gríðarleg í 800 metra hlaupinu og nú liggur fyrir að Íslandsmet dugir ekki til að komast áfram í undanúrslit. Aníta er þá í tíunda sæti fyrir utan þær átta sem komast sjálfkrafa í úrslit með því að ná tveimur efstu sætunum í hverjum riðli. 

14.22 - Aníta er með áttunda besta tímann af þeim sem eru ekki komnar sjálfkrafa áfram. Það má því ekki ein í viðbót hlaupa undir 2:00,14 mínútum, af þeim sem verða ekki í 1. eða 2. sæti í sínum riðli. Fjórir riðlar eftir. Ég ætla að fara og ná viðtali við Anítu en félagar mínir heima fylgja keppninni eftir hér til loka.

14.20 - JÁ! Aníta setur nýtt Íslandsmet með því að hlaupa á 2:00,14 mínútum. Þriggja ára gamalt Íslandsmet hennar er fallið. Riðillinn var hins vegar mjög hraður og Aníta varð í sjötta sæti.

14.18 - Aníta er komin af stað!

14.15 - Fimm búnar að hlaupa á 2:00,27 mínútum eða hraðar hingað til, án þess að ná öruggu sæti í undanúrslitum. Munum að það eru átta laus sæti fyrir þá keppendur sem ekki ná 1. eða 2. sæti í sínum riðli. Aníta þarf að hlaupa mjög nálægt 2 mínútum, nú eða ná 1. eða 2. sæti í sínum riðli.

14.12 - Aníta er næst!

14.12 - RIÐILL 3. Margaret Wambui og Selina Buchel komust áfram úr þriðja riðli. Evrópumeistarinn Natalia  Prishcepa varð þriðja á 1:59,80 sem ætti að koma henni í úrslit. Tvær til viðbótar hlupu undir Íslandsmeti Anítu.

14.05 - RIÐILL 2. Hraður riðill, enda hljóp hér Caster Semenya sem þykir mjög sigurstrangleg í greininni. Hún hljóp á 1:59,31 og var rétt á undan Ajee Wilson. Tvær til viðbótar hlupu undir 2 mínútum og Margarita Mukasheva varð fimmta á 2:00,97.

13.57 RIÐILL 1. Þá er fyrsti riðillinn búinn að hlaupa. Aníta er í þeim fjórða. Lynsey Sharp frá Bretlandi (2:00,83) og Amela Terzic frá Serbíu (2:00,99) náðu fyrstu tveimur sætunum og eru komnar í undanúrslit. Sahily Diago frá Kúbu varð þriðja á 2:01,38 mínútu.

13.50 - Nú fer fyrsti riðill að hlaupa af stað, eftir fimm mínútur. Það eru þá um 25 mínútur í að Aníta hlaupi. Hér í Ríó skín sólin glatt og hitinn er 22 stig. Skuggi er á litlum hluta hlaupabrautarinnar, en annars mun sólin skína á Anítu í hlaupinu.

13.40 - Aníta setti Íslandsmetið sitt hið ótrúlega ár 2013, sama ár og hún varð heimsmeistari 17 ára og yngri og Evrópumeistari 19 ára og yngri, og útnefnd vonarstjarna álfunnar af Frjálsíþróttasambandi Evrópu. Hún er búin að höggva mjög nærri því í sumar og er farið að kitla í að slá metið, eins og hún orðaði það í Morgunblaðinu í dag. Hún hefur slegið Íslandsmetið í 800 metra hlaupi utanhúss fimm sinnum á ferlinum, fyrst 16 ára gömul. Vonandi bætist sjötta skiptið við hér í Ríó!

13.30 - Aníta komst í fyrsta sinn í úrslit á stórmóti utanhúss þegar hún keppti á EM fyrr í sumar. Aníta hljóp þá á 2:01,41 í undanúrslitum og fór áfram „á tíma“. Hún varð í 8. sæti í úrslitunum á 2:02,55. Aníta varð í 5. sæti á HM innanhúss í mars. Hún varð í 20. sæti á HM utanhúss fyrir ári síðan.

13.20 - Aníta hleypur af stað á 8. braut. Í hennar riðli eru bæði heimsmeistarinn frá síðasta ári, Marina Arzamasova frá Hvíta-Rússlandi, og silfurverðlaunahafinn af HM, Melissa Bishop frá Kanada. Bishop hefur reyndar hlaupið hraðar á þessu ári, á 1:57,43 mínútu, en Arzamasova á best 1:59,65. Habitam Alemu frá Eþíópíu (1:59,14) er sú þriðja í riðlinum sem hefur hlaupið undir 2 mínútum, og hin þýska Christina Hering á einnig betri tíma en Aníta.

13.10 - Við vonumst auðvitað til þess að Aníta komist í undanúrslit en þá þarf hún að eiga frábært hlaup, og líklega bæta Íslandsmet sitt. Aníta er með 5. besta tímann í sínum riðli og aðeins tvær fyrstu eru öruggar um sæti í undanúrslitum. Ef riðillinn er hraður gæti Aníta einnig náð einu af átta aukasætum sem í boði eru, þó að hún lendi ekki í 1. eða 2. sæti.

13.00 - Keppt er í átta riðlum og hleypur 1. riðill af stað kl. 13.55. Aníta er í fjórða riðlinum og ætti að hlaupa af stað kl. 14.16 samkvæmt tímaseðli.

13.00 - Góðan dag kæru lesendur og verið velkomnir í þessa beinu textalýsingu frá ólympíuleikvanginum í Ríó. Hér fylgjumst við með framgöngu Anítu Hinriksdóttur í undanrásum 800 metra hlaups.

Aníta bætti Íslandsmetið í 800 metra hlaupi utanhúss fyrst árið …
Aníta bætti Íslandsmetið í 800 metra hlaupi utanhúss fyrst árið 2012, þá 16 ára gömul. mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert