Þórir mætir ósigruðum Rússum

Evgení Trefelov, landsliðsþjálfari Rússa, hrópar á einn leikmanna sinn í …
Evgení Trefelov, landsliðsþjálfari Rússa, hrópar á einn leikmanna sinn í viðureign Rússlands og Angóla í 8-liða úrslitum handknattleikskeppni Ólympíuleikanna. JAVIER SORIANO

Ólympíumeistarar Noregs  í handknattleik kvenna, sem Þórir Hergeirsson þjálfar, mæta Rússum í undanúrslitum handknattleikskeppni kvenna á Ólympíuleikanna á morgun. Rússar unnu Angólabúa, 31:27, í síðasta leik 8-liða úrslitanna.

Rússneska kvennalandsliðið, undir stjórn hins litríka Evgení Trefelov, er taplaust á leikunum. Það vann allar fimm viðureignir sínar í riðlakeppninni og leikinn í 8-liða úrslitum í gærkvöldi. Rússneska landsliðið virðist vera að ná sér á strik á nýja leik eftir nokkur mögur ár. Liðið náði sér nokkuð vel á strik á HM í Danmörku undir lok síðasta árs en fataðist flugið í 8-liða úrslitum hvar það tapaði fyrir Pólverjum og féll úr keppni. 

Norska landsliðið tapaði fyrsta leik sínum á leikunum á Ólympíuleikunum, gegn Brasilíu en hefur unnið fimm síðustu viðureignir sínar. 

Í hinum leik undanúrslitanna mætast Frakkar og Hollendingar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert