„Ótrúlegt ef hann er viðriðinn þetta“

Patrick Hickey, forseti evrópsku ólympíunefndarinnar, var handtekinn í Ríó í …
Patrick Hickey, forseti evrópsku ólympíunefndarinnar, var handtekinn í Ríó í morgun vegna miðasölubrasks. AFP

Ólíkindum sætir ef satt er að forseti evrópsku ólympíunefndarinnar hefur gerst sekur um miðabrask á Ólympíuleiknum, að sögn Líneyjar Rutar Halldórsdóttur, framkvæmdastjóra Íþrótta- og ólympíusambands Íslands. „Mér finnst ótrúlegt og ólíklegt að maður í hans stöðu sé viðriðinn nokkuð slíkt,“ segir hún.

Patrick Hickey, forseti evrópsku og írsku ólympíunefndarinnar og fulltrúi í Alþjóðaólympíunefndinni, var handtekinn í Brasilíu í dag, sakaður um að aðild að ólöglegri sölu á miðum sem írsku ólympíunefndinni voru úthlutaðir á Ólympíuleikana í Ríó.

Tíðindin komu Líneyju Rut, sem er stödd í Ríó de Janeiro, verulega á óvart en hún hefur þekkt Hickey lengi.  Hún veit ekki til að  hann hafi áður verið bendlaður við spillingarmál.

„Mér finnst með ólíkindum ef satt er. Ég veit ekki meira en það sem er í fjölmiðlum. Maður getur ekki sagt neitt um þetta á þessari stundu. Þetta kemur mér mjög á óvart,“ segir Líney Rut. 

Frétt mbl.is: Forseti handtekinn fyrir miðabrask í Ríó

Handtaka Hickey er talin tengjast handtöku annars Íra við upphaf Ólympíuleikanna. Á honum fannst verulegt magn af miðum á Ólympíuleikana sem voru merktir írsku ólympíunefndinni. Talið er að miðana hafi hann selt á hátt í milljón íslenskar krónur hvern.

Brasilískir fjölmiðlar segja að Hickey hafi reynt að flýja þegar lögreglumenn komu til að handtaka hann. Talsmaður utanríkisráðuneytis Írlands segir að það hafi upplýsingar um að írskur ríkisborgari hafi verið handtekinn í Ríó og sé að vinna að því að veita aðstoð í gegnum ræðisskrifstofu sína þar.

Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Íþrótta- og ólympíusambands Íslands.
Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Íþrótta- og ólympíusambands Íslands.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert