Frakkar í úrslitaleikinn

Olivier Krumbholz, þjálfari franska landsliðsins, fagnar ásamt leikmönnum sínum sigrinum …
Olivier Krumbholz, þjálfari franska landsliðsins, fagnar ásamt leikmönnum sínum sigrinum á Hollendingum og sæti í úrslitum handknattleikskeppni Ólympíuleikanna. AFP

Franska kvennalandsliðið í handknattleik tryggði sér í kvöld rétt til þess að leika til úrslita á Ólympíuleikunum í Ríó. Frakkar unnu Hollendinga með minnsta mun, 24:23, í æsispennandi undanúrslitaleik.  Franska liðið leikur annaðhvort við Rússa eða Norðmenn, undir stjórn Þóris Hergeirssonar, í úrslitum á laugardaginn.

Undanúrslitaleikur Noregs og Rússlands fer fram síðar í kvöld. 

Leikur Frakka og Hollendinga var æsispennandi og jafn, ekki síst í lokin. Frakkar voru með fjögurra marka forskot í hálfleik, 17:13. Hollendingar minnkuðu muninn snemma í síðari hálfleik, eftir það var leikurinn svo að segja í járnum. Allison Pineau skoraði sjö af mörkum Frakka en Laura van der Heijden var markahæst í hollenska liðinu með níu mörk. 

Norska landsliðið er ríkjandi ólympíumeistari í handknattleik kvenna. 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert