Uppskar ekki eins og til var sáð

Vonbrigði. Ásdís Hjálmsdóttir hitti ekki á góðan dag í spjótkastskeppninni.
Vonbrigði. Ásdís Hjálmsdóttir hitti ekki á góðan dag í spjótkastskeppninni. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er ekki það sem við vildum, ekki það sem við bjuggumst við og ekki það sem Ásdís hefur fórnað fjórum árum ævi sinnar fyrir,“ sagði Terry McHugh, hinn írski þjálfari Ásdísar Hjálmsdóttur, eftir að Ásdís lauk keppni á Ólympíuleikunum í Ríó í fyrrinótt.

Ásdís náði sér engan veginn á strik í undankeppni spjótkasts og misheppnuðust öll þrjú köst hennar. Það lengsta var aðeins 54,92 metrar, sem er langt frá því sem Ásdís hefur verið að gera í ár. Hennar lengsta kast á árinu er 61,37 metrar og Íslandsmetið 62,77 metrar. Ásdís hafnaði í 30. sæti af 31 keppanda.

„Ég er mjög vonsvikinn. Ég hef aldrei séð Ásdísi eins vel undirbúna. Það er allt búið að vera eins og best verður á kosið í aðdraganda mótsins, hún var búin að vera að vinna með Hafrúnu [Kristjánsdóttur] íþróttasálfræðingi og æfingabúðirnar sem við komumst í voru fullkomnar. Alveg fram að ögurstundu leit allt mjög vel út og mér leist afar vel á þetta,“ sagði Terry. Ásdís og Terry sögðu bæði að það hefði verið atrenna hennar sem hefði verið of illa útfærð og „skemmt“ köstin. Að atrennan hefði þurft að vera lengri:

„Ég held að hún hafi bara verið svo rosalega tilbúin í að byrja, að skrefin hafi verið aðeins lengri en venjulega og hún fór of nálægt línunni. Það sást augljóslega að hún reyndi að „bjarga“ fyrsta kastinu, sleppa við að það yrði ógilt, og þar með fór kastið eins og það fór. Í öðru kastinu var hún ennþá of nálægt endalínunni. Ég sagði henni þá að byrja bara hálfum metra aftar, en svo á ég eftir að skoða betur hvað gerðist í síðasta kastinu,“ sagði Terry, og hann segir niðurstöðuna enn meiri vonbrigði miðað við hve Ásdís sé í góðu formi.

Sjá viðtal við Terry McHugh í heild í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert