„Hrikalega sár endir“

Dagur Sigurðsson fær sér vatnssopa á meðan á leiknum við …
Dagur Sigurðsson fær sér vatnssopa á meðan á leiknum við Frakka í undanúrslitum Ólympíuleikanna í Ríó stóð í kvöld. AFP

„Þetta var hrikalega sár endir, en ég held að Frakkarnir séu vel að þessu komnir,“ sagði Dagur Sigurðsson við mbl.is eftir eins marks tap lærisveina hans í Þýskalandi gegn Frökkum,29:28, í undanúrslitum handboltakeppni karla á Ólympíuleikunum.

„Frakkar spiluðu gríðarlega vel og byrjuðu alveg ótrúlega sterkt. Við réðum ekki neitt við neitt, töpuðum nánast öllum einvígum og þá er þetta erfitt. Þeir komust inn að sex metrum í hvert einasta skipti og þá fær maður ekki markvörslu né hraðaupphlaup. Þetta vantaði allt í fyrri hálfleik. Við þurftum að byrja mjög snemma á því að spila 7 á móti 6 til að koma okkur aftur inn í leikinn, sem hjálpaði okkur fram að hálfleik,“ sagði Dagur, en staðan í hálfleik var 16:13 fyrir Frakkland.

„Svo áttum við líka erfiða byrjun á seinni hálfleik. Menn voru svolítið bensínlausir fannst mér, og vantaði smá tiltrú. Síðan skiptum við aðeins um leikmenn og náðum taktinum, á meðan að þeir voru líka búnir að eyða miklum krafti og þurftu að pústa. Þá náðum við að berja okkur inn í þetta aftur, og þetta var einhvern veginn allt með okkur, og þessi lokasekúnda var því ótrúlega sár, en svona er þetta,“ sagði Dagur, en Daniel Narcisse skoraði sigurmark Frakka í þann mund sem lokaflautið gall.

„Hann er að hrynja einhvern veginn út í hornið en gat dúndrað honum. Kannski hefði hornamaðurinn okkar getað lokað betur með vörninni, en það er spurning hvort maður vill eitthvað frekar fá Luc Abalo fljúgandi inn úr horninu. Þetta datt bara þeirra megin,“ sagði Dagur.

Einbeita sér strax að bronsleiknum

Evrópumeistaranna bíður nú leikur um bronsverðlaunin í Ríó á sunnudag, gegn tapliðinu í leik Danmerkur og Póllands í kvöld. Dagur þvertekur fyrir að það sé eitthvað óspennandi að leika um bronsið:

„Nei, svo sannarlega ekki. Sérstaklega ekki fyrir þennan hóp. Þeir eru allir hérna í fyrsta skipti. Við erum búnir að ræða það að höggva strax á þennan hnút og byrja að einbeita okkur að næsta verkefni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert