Kerr á förum til Indlands

Duwayne Kerr í viðureign Fylkis og Stjörnunnar í sumar.
Duwayne Kerr í viðureign Fylkis og Stjörnunnar í sumar. Árni Sæberg

Duwayne Kerr, markvörður Stjörnunnar, mun yfirgefa herbúðir liðsins í lok ágúst. Greint var frá félagsskiptunum á fótbolti.net í dag. 

Kerr er á leið í indversku ofurdeildina til Chennaiyn þar sem fyrrum landsliðsmaður Ítalíu, Marco Materazzi, er við stjórnvölinn. Hann hafði fengið fleiri tilboð frá Indlandi en Chennaiyn var að lokum fyrir valinu. Materazzi kom á dögunum til Íslands til að semja við Kerr um félagsskipti. 

Kerr gekk í raðir Stjörnunnar fyrir tímabilið frá Noregi og hefur misst af nokkrum leikjum í sumar til að taka þátt í Copa America með Jamaíska landsliðinu. 

Félagsskiptin hafa í för með sér að Guðjón Orri Sigurjónsson og Sveinn Sigurður Jóhannesson munu keppa um byrjunarliðssæti út tímabilið. 

Í samtali við mbl.is staðfesti Victor Olsen rekstrarstjóri meistaraflokks karla hjá Stjörnunni að félagsskiptin muni eiga sér stað. 

Já, það er staðfest að hann sé að fara til Indlands, hann fer eftir leikinn á móti Breiðabliki,“ sagði Victor og staðfesti einnig að lið í Evrópu hefðu haft áhuga á markmanninum. 

Victor segir að íslensk félög hafi ekki fjárhagslega burði til að keppa við liðin í indversku ofurdeildinni.  

„Við eigum ekki séns. Menn geta fengið ansi margar kúlur upp úr krafsins með því að fara til Indlands. Síðan skulum við sjá hvort að Duwayne snúi til baka eftir ævintýrið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert