ÓL í Ríó – dagur 14

Í dag ræðst hvaða lið leika til úrslita um ólympíumeistaratitil karla í handbolta. Guðmundur Guðmundsson getur stýrt Dönum til tímamótasigurs.

Danir hafa aldrei unnið til verðlauna í handbolta karla á Ólympíuleikum, en takist þeim að leggja Pólverja að velli í undanúrslitunum í kvöld er ljóst að þeir fá að minnsta kosti silfur. Guðmundur hefur aftur á móti áður stýrt liði til úrslita á Ólympíuleikum, eins og alþjóð veit. Leikur Danmerkur og Póllands hefst kl. 23.30.

Dagur Sigurðsson og lærisveinar hans í Evrópumeistaraliði Þýskalands mæta heims- og ólympíumeisturum Frakklands kl. 18.30, í hinum undanúrslitaleiknum. Þýskaland hefur þrívegis fengið verðlaun í handbolta karla á Ólympíuleikum; silfur árin 2004 og 1984 en gull í Berlín 1936, þegar handbolti var spilaður utanhúss.

Ná þær sænsku í gullverðlaun?

Þetta er þriðji síðasti dagur Ólympíuleikanna og ráðast úrslitin meðal annars í fótbolta kvenna, þar sem Þýskaland mætir Svíþjóð sem tekist hefur að slá út bæði Bandaríkin og Brasilíu í vítaspyrnukeppnum á leið sinni í úrslitaleikinn. Úrslitaleikirnir í hokkí og sundknattleik kvenna eru einnig í kvöld.

Í dag má líka sjá undanúrslit í körfubolta karla. Spánn og Bandaríkin mætast kl. 18.30, en Ástralía og Serbía kl. 22.

Þá eru Usain Bolt og félagar í jamaísku boðhlaupssveitinni meðal þeirra sem verða á ferðinni á ólympíuleikvanginum í keppni í frjálsum íþróttum.

Alls er keppt um 22 gullverðlaun í dag, í eftirtöldum greinum: Frjálsum íþróttum (50 km ganga, sleggjukast og 4x100 m hlaup karla, og 20 km ganga, stangarstökk, 5.000 m hlaup og 4x100 m hlaup kvenna), badminton, listsundi, hestaíþróttum, hjólreiðum, sundknattleik, hnefaleikum, hokkí, fótbolta, nútímafimmtarþraut, glímu og taekwondo.

Lisa Dahlkvist og stöllur í sænska landsliðinu í fótbolta eru …
Lisa Dahlkvist og stöllur í sænska landsliðinu í fótbolta eru komnar alla leið í úrslitaleik Ólympíuleikanna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert