Þórir í bronsleik eftir dramatík

Þórir Hergeirsson einbeittur á meðan tveir leikmanna hans fagna marki …
Þórir Hergeirsson einbeittur á meðan tveir leikmanna hans fagna marki í leiknum við Rússa í undanúrslitum Ólympíuleikanna í Ríó. AFP

Þórir Hergeirsson þarf að gera sér að góðu að stýra Noregi í leik um bronsverðlaunin í handbolta kvenna á Ólympíuleikunum í Ríó, eftir háspennuleik gegn Rússum í undanúrslitum í nótt.

Rússland vann leikinn eftir framlengingu, 38:37, eftir afar jafna og spennandi viðureign. Vinstri hornamaðurinn Camilla Herrem fékk tækifæri til að jafna metin fyrir Noreg í lok framlengingarinnar en hún vippaði yfir markvörð Rússa og rétt fram hjá markinu.

Vonbrigðin leyndu sér ekki hjá leikmönnum norska liðsins, sem eru ríkjandi ólympíu-, heims- og Evrópumeistarar undir stjórn Þóris. Noregur leikur við Holland um bronsið.

Norðmenn byrjuðu ívið betur í leiknum í nótt en Rússar skoruðu svo fjögur mörk í röð, komust í 12:11, og voru 18:16 yfir í hálfleik. Rússar héldu frumkvæðinu í seinni hálfleik. Noregur náði nokkrum sinnum að jafna metin, ekki síst vegna stórleiks Noru Mørk sem skoraði 12 mörk í venjulegum leiktíma, en tókst aldrei að komast yfir.

Rússar komust í 30:29 þegar ein og hálf mínúta lifði leiks. Þórir tók þá leikhlé og Noregur jafnaði 40 sekúndum fyrir leikslok. Ekaterina Ilina kom Rússum aftur yfir af vítalínunni, þegar aðeins 18 sekúndur voru eftir, en Norðmenn geystust fram í sókn og Heidi Løke náði að grípa boltann á línunni og skora jöfnunarmark við gríðarlegan fögnuð í höllinni.

Noregur var manni færri í tvær mínútur í fyrri hluta framlengingarinnar og Rússar höfðu yfirhöndina að honum loknum, 34:33. Liðin skiptust svo á að skora í seinni hluta framlengingarinnar en að lokum stóðu Rússar uppi sem sigurvegarar, með sigurmarki hálfri mínútu fyrir leikslok.

Vladlena Bobrovnikova var frábær í liði Rússa og skoraði 8 mörk auk þess að búa mikið til fyrir liðsfélaga sína. Mørk var markahæst Noregs, átti magnaðan leik eins og fyrr segir og skoraði 13 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert