Annar draumur tók við

Þórir Hergeirsson fagnar með leikmönnum sínum eftir að bronsverðlaunin voru …
Þórir Hergeirsson fagnar með leikmönnum sínum eftir að bronsverðlaunin voru í höfn í Ríó. AFP

„Það er alltaf markmiðið að enda á verðlaunapalli, eins hátt og hægt er,“ sagði Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta, við mbl.is eftir að liðið vann til bronsverðlauna á Ólympíuleikunum í Ríó í dag.

Þetta voru áttundu verðlaunin sem Noregur vinnur á þeim níu stórmótum sem farið hafa fram síðan Þórir tók við sem aðalþjálfari liðsins. Norska liðið átti titil að verja frá síðustu Ólympíuleikum en tapaði í framlengdum undanúrslitaleik gegn Rússlandi hér í Ríó og mætti því Hollandi í leiknum um bronsverðlaunin. Noregur vann tíu marka sigur, 36:26, í dag.

„Núna vorum við bara einu marki of léleg gegn Rússum, þar sem bæði lið spiluðu firnavel, og þegar staðan er sú er bara hægt að gera það besta úr málunum og vinna bronsið. Fyrir okkur sem erum í þessu, þjálfarana og leikmennina, þá er draumurinn auðvitað að slást um gullið. En þegar sá draumur slokknar er annar draumur til staðar, sem er að vinna verðlaun,“ sagði Þórir.

„Þegar við vorum búin að melta aðeins leikinn við Rússana gátum við staðið með höfuðið uppreist og sagt að við gerðum eins og við gátum, en náðum bara ekki að merja þetta í okkar hag. Þá var bara að fá upp stemninguna aftur og við vissum að við myndum taka Hollendingana ef við kæmum upp aftur,“ sagði Þórir.

„Við fengum hörkumarkvörslu í byrjun og keyrðum á þær, náðum miklu forskoti. Þær hollensku höfðu einhvern veginn aldrei trúna á þessu. Svo kom eitthvert einbeitingarleysi og þreyta í lokin, en þetta var aldrei í hættu,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert