Guðmundur í gullleikinn

Guðmundur Guðmundsson leggur á ráðin með leikmönnum sínum í leiknum …
Guðmundur Guðmundsson leggur á ráðin með leikmönnum sínum í leiknum við Pólverja í Ríó í nótt. AFP

Danmörk, undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar, mun leika um gullverðlaun í handbolta karla á Ólympíuleikunum í Ríó á sunnudag. Ljóst er að Danir fá að minnsta kosti silfur, en það eru fyrstu verðlaun karlalandsliðs þjóðarinnar í handbolta á Ólympíuleikum.

Sjá einnig: „Maður fær svolítið flashback“

Danir unnu Pólverja í æsispennandi, framlengdum undanúrslitaleik í nótt, 29:28. Þeir mæta Frökkum í úrslitaleiknum kl. 17 á sunnudag.

Staðan eftir venjulegan leiktíma var 25:25. Niklas Landin hrökk í gang í framlengingunni og varði mikilvæg skot fyrir Dani, sem skoruðu fyrstu þrjú mörk framlengingarinnar. Staðan eftir fyrri hluta hennar var 29:26 og Talant Dujshebaev, þjálfari Póllands, orðinn öskuillur og farinn að rífa í leikmenn sína á varamannabekknum.

Pólverjar reyndu hvað þeir gátu að jafna metin á seinni fimm mínútum framlengingarinnar og náðu að minnka muninn í eitt mark þegar hálf mínúta var eftir. Danir héldu boltanum hins vegar eftir það og fögnuðu vel og lengi í leikslok, og var Guðmundur faðmaður í bak og fyrir.

Pólland mætir Þýskalandi, undir stjórn Dags Sigurðssonar, í leiknum um bronsverðlaunin.

Pólski markvörðurinn frábær

Danir höfðu haft frumkvæðið í fyrri hálfleik venjulegs leiktíma en Pólland var aldrei langt undan. Pólverjar skoruðu úr tveimur hraðaupphlaupum í röð og náðu að jafna metin, 9:9, á 20. mínútu. Guðmundur tók þá leikhlé og fljótlega komust Danir fjórum mörkum yfir, 14:10 og 15:11. Pólverjar gerðu þá næstu fjögur mörk og jöfnuðu metin hálfri mínútu fyrir hálfleik, áður en Kasper Søndergaard gerði vel í að koma Dönum í 16:15 um leið og flautað var til hlés.

Liðunum gekk illa að skora í seinni hálfleik og var Piotr Wyszomirski í marki Pólverja Dönum sérstaklega erfiður, en hann fór á kostum og varði helming skota sem á markið komu.

Þegar átta mínútur voru eftir tók Guðmundur leikhlé, í stöðunni 21:21. Danir komust svo yfir, 23:22, þegar Niklas Landin varði skot og skoraði sjálfur yfir allan völlinn, en Pólverjar höfðu þá verið að prófa að spila með aukamann í sókninni í stað þess að hafa Wyszomirski í markinu. Pólverjar skoruðu næstu tvö mörk og voru yfir, 24:23, þegar þrjár mínútur lifðu leiks en þá tók Guðmundur sitt þriðja leikhlé.

Draumamark skilaði framlengingu

Danir jöfnuðu strax í kjölfar leikhlésins og stóðu vörnina vel. Henrik Toft Hansen gerði svo afar vel í að ná í vítakast 40 sekúndum fyrir leikslok, eftir að ekkert virtist ætla að ganga hjá Dönum gegn pólsku vörninni, og Mikkel Hansen skoraði sitt níunda mark úr vítakastinu, 25:24.

Það virtist ætla að verða sigurmark því lokasókn Pólverja gekk mjög illa, en hægri hornamaðurinn Michal Daszek skoraði þá ótrúlegt mark úr afar erfiðu færi af punktalínu, jafnaði metin og tryggði Póllandi framlengingu. Það dugði hins vegar ekki til og Danir fögnuðu afar vel í leikslok, enda um mikinn tímamótasigur að ræða hjá þeim.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert