Neymar færði Brasilíu langþráðan titil

Neymar hleypur til Weverton, með tárin í augunum, eftir að …
Neymar hleypur til Weverton, með tárin í augunum, eftir að þeir höfðu tryggt Brasilíu ólympíumeistaratitilinn. AFP

Brasilíska þjóðin er í sjöunda himni eftir að Neymar tryggði Brasilíu sigur í knattspyrnu karla á Ólympíuleikunum í kvöld, í vítaspyrnukeppni gegn Þýskalandi.

Brasilía er annáluð fótboltaþjóð og fagnaðarlætin eftir sigurmark Neymars voru gríðarleg á Maracana-vellinum, sem og víða um Ríó og sjálfsagt um allt land. Neymar lá sjálfur eftir á vellinum og hágrét í mikilli geðshræringu eftir að titillinn var í höfn.

Þetta er í fyrsta sinn í sögunni sem Brasilíumenn, sem hafa oftast þjóða unnið HM, vinna fótboltakeppni karla á Ólympíuleikunum.

Staðan eftir venjulegan leiktíma og framlengingu var 1:1. Neymar hafði komið Brasilíu yfir með marki beint úr aukaspyrnu í fyrri hálfleik, en Maximilian Meyer jafnaði metin á 60. mínútu. Í vítaspyrnukeppninni fóru fyrstu fjórar spyrnur hjá hvoru liði í markið áður en Weverton, markverði Brasilíu, tókst að verja spyrnu Nils Petersen. Neymar sá svo um að tryggja Brasilíu sigurinn eins og fyrr segir.

Nígería fékk bronsverðlaunin en liðið vann Hondúras fyrr í dag.

Neymar fékk kórónu eftir sigurinn, enda mikil þjóðhetja í Brasilíu.
Neymar fékk kórónu eftir sigurinn, enda mikil þjóðhetja í Brasilíu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert