Þórir stýrði Noregi til bronsverðlauna

Þórir Hergeirsson stýrir sínu liði af varamannabekknum í bronsleiknum við …
Þórir Hergeirsson stýrir sínu liði af varamannabekknum í bronsleiknum við Holland í Ríó í dag. AFP

Norska kvennalandsliðið í handbolta, undir stjórn Þóris Hergeirssonar, vann til bronsverðlauna á Ólympíuleikunum í Ríó en liðið lagði Holland að velli með örggum hætti, 36:26, í leiknum um bronsið í dag.

Þetta eru áttundu verðlaun Þóris sem aðalþjálfari Noregs. Hann var áður aðstoðarþjálfari liðsins en tók við sem aðalþjálfari fyrir HM 2009, þar sem Noregur fékk brons. Noregur hefur síðan tvívegis orðið Evrópumeistari (2010 og 2014), tvívegis heimsmeistari (2011 og 2015) og ólympíumeistari 2012. Þá fékk liðið silfur á EM 2012.

Noregur byrjaði með látum gegn Hollandi í Future Arena í Ríó í dag. Þær norsku komust til að mynda í 4:1 og 14:5. Hollendingar tóku betur við sér undir lok fyrri hálfleiks, og minnkuðu muninn í sex mörk, 19:13, á síðustu sekúndu hálfleiksins. Hollendingar nýttu sér það að geta skipt aukasóknarmanni inn á fyrir markvörð á lokakafla fyrri hálfleiks, og það gaf góða raun, en norska vörnin var afar öflug og Kari Aalvik Grimsbö varði 43% skota sem á markið komu.

Noregur komst níu mörkum yfir snemma í seinni hálfleik, 23:14, og sigurinn virtist aldrei í hættu eftir það. Hollendingar náðu mest að minnka muninn í fimm mörk, fyrst í 29:24 þegar níu mínútur voru eftir, en Þórir tók þá leikhlé og Noregur hélt áfram góðu forskoti til loka leiksins og vann að lokum stórsigur.

Nora Mörk var eins og oft áður markahæst hjá Noregi með sjö mörk en hún varð markadrottning mótsins með 62 mörk. Stine Bredal Oftedal og Amanda Kurtovic skoruðu sex mörk hvor í dag. Hjá Hollandi, sem tapaði einnig fyrir Noregi í úrslitaleik HM í desember, var Nycke Groot markahæst með sex mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert