Til mikils að vinna í bronsleiknum

Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handknattleik, einbeittur á hliðarlínunni …
Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handknattleik, einbeittur á hliðarlínunni í leik liðsins gegn Rússlandi í undanúrslitum Ólympíuleikanna í Ríó í Brasilíu. AFP

„Margir leikmenn í liðinu hafa ekki unnið til verðlauna á Ólympíuleikum og það er því mikið undir í leiknum um þriðja sætið. Við viljum leggja vonbrigðin að baki okkur og klára keppnina með stæl með sigri gegn Hollandi,“ sagði Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handknattleik, í samtali við norska fjölmiðla, en liðið mætir Hollandi í leiknum um þriðja sæti á Ólympíuleikunum í Ríó í Brasiíu í dag. 

„Við verðum að setja kassann upp og leikmenn verða að stappa stálinu hver í annan. Við megum ekki vorkenna okkur eða taka svekkelsið með okkur í leikinn um bronsið. Við höfum okkar aðferðir til þess að gleyma vonbrigðunum og það hefur gengið vel að mínu mati. Við komum okkur aftur í rútínu fljótlega eftir tapið og höfum undirbúið okkur vel fyrir leikinn gegn Hollandi,“ sagði Þórir um viðbrögð liðsins við svekkjandi tapi liðsins gegn Rússlandi í undanúrslitum. 

„Leikmenn liðsins hafa, að ég held, jafnað sig á tapinu gegn Rússum og eru með fulla einbeitingu á leiknum gegn Hollandi. Við eigum afar góðan möguleika á að leggja Holland að velli og erum staðráðin í að gera það. Það er mikill munur á því að enda mót með sigri eða tapi og við getum haldið glaðbeitt heim ef okkur tekst ætlunarverk okkar gegn Hollandi,“ sagði Þórir um leik Noregs og Hollands sem fram fer klukkan 14.30 í dag.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert