Væri frábært að vera Sir Mo

Mo Farah fagnar með medalíurnar sínar.
Mo Farah fagnar með medalíurnar sínar. AFP

Breski langhlauparinn Mo Farah segir að það væri sannur heiður að feta í fótspor knattspyrnustjórans fyrrverandi, Sir Alex Ferguson, og verða sleginn til riddara.

Farah varð ólympíumeistari í 5 og 10 km hlaupi og varði báða titla sína frá því í London fyrir fjórum árum. Talið er að hann verði sleginn til riddara eftir afrekin í Ríó.

„Það væri frábært, vitandi hvar ég ólst upp og hvaðan ég kem,“ sagði Farah við ESPN en hann fæddist í Sómalíu en flutti til Bretlands átta ára gamall.

„Mig dreymdi ekki um að verða ólympíumeistari, hvað þá fjórfaldur ólympíumeistari. Allt er mögulegt og ég nýt þess að vinna hlaup,“ bætti Farah við.

„Það væri frábært að vera Sir Mo. Ég man þegar Sir Alex Ferguson var sleginn til riddara og það væri frábært að vera í sama flokki og hann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert