Fleiri læknaskýrslum lekið

Bradley Wiggins.
Bradley Wiggins. AFP

Rússneskir tölvuþrjótar hafa lekið fleiri læknaskýrslum þekktra íþróttamanna á netið. Gögnunum stálu þeir úr tölvukerfi Alþjóðlega lyfjaeftirlitsins (WADA).

Samkvæmt frétt BBC hefur gögnum um bresku hjólreiðamennina Bradley Wiggins, sem vann til gullverðlauna á Ólympíuleikunum í Ríó, og Chris Froome, sem hefur farið með sigur af hólmi í þrennum Frakklandshjólreiðum, Tour de France. Ekkert í gögnunum bendir til að þeir hafi gerst brotlegir við reglur íþróttahreyfingarinnar. 

Í tilkynningu frá WADA kemur fram að allt bendi til þess að lekanum sé ætlað að draga úr trausti lyfjaeftirlitsins og rýra orðspor þess.

Rússneska íþróttahreyfingin hefur stundað umfangsmikla blekkingastarfsemi til að fela lyfjanotkun íþróttamanna í tugum greina, ef marka má skýrslu, sem kynnt var í sumar. Skýrslan var gerð að undirlagi Alþjóðlega lyfjaeftirlitsins, WADA, og urðu niðurstöður hennar til þess að hluti rússneska keppnisliðsins á ÓL fékk ekki að taka þátt í leikunum.

Í gögnunum sem nú var lekið er að finna upplýsingar um tíu bandaríska, fimm breska og fimm þýska íþróttamenn auk íþróttafólks frá Danmörku, Rússlandi, Póllandi, Tékklandi og Rúmeníu.

Áður hafði upplýsingum um 11 verðlaunahafa í Ríó verið lekið, þar á meðal um Bethanie Mattek-Sands, tennisleikara og fimleikastúlkuna Simone Biles.

Frétt mbl.is: Skjölum stolið um Biles 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert