Meira stress á lyftingamótunum

Þuríður Erla Helgadóttir úr Ármanni kom sá og sigraði í kvennaflokki í keppni í ólympískum lyftingum á Reykjavíkurleikunum í dag. Hún bætti Íslandsmet í jafnhendingu og samanlögðum árangri tvisvar sinnum með því að lyfta 93 kg og 96 kg í -58 kg flokki. Samtals lyfti hún 170 kg sem gaf 242,6 Sinclair stig.

„Þetta er mjög skemmtilegt mót. Því léttari sem þú ert því fleiri stig færðu fyrir hvert kíló sem þú lyftir svo þó það muni ekki miklu á mér og stelpunum þá fæ ég fleiri stig,“ sagði Þuríður í samtali við mbl.is eftir verðlaunaafhendingu í dag. Hún keppir aðallega í crossfit og leggur því ekki sérstaka áherslu á ólympísku lyftingarnar þó þær séu vissulega hluti af því.

„Ég er aðallega að keppa í crossfit en það er gaman að taka þátt í svona lyftingamótum. Það er aðeins meira stress, enda hefur maður bara mínútu og eina tilraun. En maður hefur bara gott af því, það er mjög gaman,“ sagði Þuríður, en nánar er rætt við hana í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert