Þarf að berjast fyrir því að komast á pall

Björgvin Karl Guðmundsson úr lyftingafélaginu Hengli endaði í þriðja sæti og varð efstur Íslendinga í keppni í ólympískum lyftingum á Reykjavíkurleikunum í dag. Björgvin tvíbætti Íslandsmetið í -85 kg flokki í snörun þegar hann lyfti 122 kg og 127 kg og í samanlögðu, 267 kg og 272 kg, sem gaf honum 327,5 stig.

„Mjög skemmtilegt mót og gaman að sjá þróunina milli ára. Þetta er mun jafnara núna og maður þarf að berjast fyrir því að komast á pall,“ sagði Björgvin í samtali við mbl.is eftir mótið í dag. Hann sagði margir hafa sýnt framfarir.

„Menn eru klárlega að bæta sig á mótum sem er mjög jákvætt þó ég viti ekki hvað þeir taka á æfingum. Þú hefur bara þrjár tilraunir svo þú vilt vera öruggur en þarft einnig að ýta sjálfum þér aðeins áfram,“ sagði Björgvin sem segir mikinn uppgang vera í lyftingum hér á landi.

„Sérstaklega mikill en ég held það sé aðallega fyrir tilkomu crossfit. Það hjálpar mikið og flestir þessir keppendurnir hér í dag koma þaðan,“ sagði Björgvin, en nánar er rætt við hann í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert