Ráðstefna um styrktarþjálfun

Ráðstefna Reykjavíkurleikanna verður í Háskólanum í Reykjavík.
Ráðstefna Reykjavíkurleikanna verður í Háskólanum í Reykjavík. Sportmyndir.is

Reykjavíkurleikarnir hefjast í dag og er fyrsti dagskrárliður leikanna íþróttaráðstefna þar sem bæði innlendir og erlendir fyrirlesarar fjalla um styrktarþjálfun íþróttafólks. Það eru Íþróttabandalag Reykjavíkur, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og Háskólinn í Reykjavík sem standa saman að ráðstefnunni sem fram fer í Háskólanum í Reykjavík kl.17-21.

Þjálfarar, forsvarsmenn í íþróttahreyfingunni og íþróttafólk ætti ekki að láta þessa ráðstefnu framhjá sér fara því fyrirlesararnir eru bæði reynslumiklir og áhugaverðir:

  • Dr. Ronald Kipp verður með erindi sem ber heitið: „Long term athlete development“. Kipp er fræðslustjóri bandaríska skíða- og snjóbrettasambandsins (USSA). Eftir að hafa lokið doktorsnámi þar sem hann skoðaði meðal annars hreyfifærni fór hann að vinna hjá Skíðasambandinu sem þjálfari og yfir- lífeðlisfræðingur karlaliðsins í alpagreinum. Hann hefur einnig unnið með landsliði Noregs í alpagreinum. Dr. Ron hefur skrifað tvær bækur, fengið birtar yfir 50 vísindagreinar og haldið yfir 100 fyrirlestra bæði í heimalandinu og utan þess
  • Sænski prófessorinn Dr.Michail Tonkonogi er maðurinn á bak við hið öfluga barna- og ungmennastarf sænska kraftlyftingasambandsins og fjallar erindi hans um styrktaruppbyggingu ungmenna. Hann mun fara yfir hvaða æfingar, magn og ákefð ætti að notast við í styrktarþjálfun barna o.fl.
  • Hlín Bjarnadóttir, sjúkra- og fimleikaþjálfari mun í fyrirlestri sínum skoða ástæður þess af hverju fimleikar hafa virkað vel sem grunnur þegar kemur að iðkun annarra íþróttagreina. Tvær fyrrum fimleikakonur, Fanney Hauksdóttir, Evrópumeistari í kraftlyftingum og Þórey Edda Elísdóttir sem varð í 5.sæti í stangastökki á Ólympíuleikunum 2004, munu taka þátt í erindinu og segja frá sínum upplifunum.
  • Fyrirlestur Jacky Pellerin, landsliðsþjálfara Íslands í sundi, heitir „The importance of strength training for elite swimmers“ Hann mun gefa innsýn í hvernig styrktarþjálfun hefur hjálpað okkar bestu sundmönnum. Jacky hefur þjálfað sundmenn sem unnið hafa til verðlauna á Heims- og Evrópumótum og þjálfar meðal annarra Eygló Ósk Gústafsdóttir íþróttamann ársins 2015.

Í lok ráðstefnunnar mun breski spretthlauparinn Dwain Chambers sitja fyrir svörum en hann er einn af spretthörðustu mönnum heims og fyrrum heims- og Evrópumeistari.

Hægt er að kaupa miða á ráðstefnuna á meðan birgðir endast á midi.is. Dagskrá og nánari upplýsingar má finna á vef Reykjavíkurleikanna rig.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert