Styrktarþjálfun á að gera börnum og unglingum gott

Dr. Michail Tonkonogi.
Dr. Michail Tonkonogi.

Dr. Michail Tonkonogi, prófessor í íþróttalífeðlisfræði við Dalarna-háskóla í Svíþjóð, hélt fróðlegan fyrirlestur um styrktarþjálfun barna á ráðstefnu á vegum Háskólans í Reykjavík og Íþróttabandalags Reykjavíkur í síðustu viku. Þar kom ýmislegt fram um hvernig æfingum skal háttað til dæmis varðandi þyngdir og endurtekningar í lyftingum.

Dr. Tonkonogi réðst í erindi sínu að þeirri mýtu að börn og unglingar megi ekki lyfta lóðum. Sá sem þetta ritar var til dæmis alinn upp við slíka umræðu og þá var talið að lyftingar og styrktarþjálfun gætu hamlað vexti barna og unglinga svo dæmi sé tekið. Tonkonogi segir þvert á móti að styrktarþjálfun ætti að gera börnum og unglingum gott en hér er vitaskuld sleginn sá varnagli að ekki er sama hvernig slík þjálfun er stunduð. Æskilegt er að fagmenn hafi umsjón með slíku.

Skiljanlegt þegar upplýsingar lágu ekki fyrir

„Þessi umræða var skiljanleg á sínum tíma þegar ekki lágu fyrir jafnmiklar upplýsingar og færri rannsóknir höfðu verið gerðar. Þá var skiljanlegt að fólk vildi fara varlega í stað þess að valda mögulega skaða. Vísindin hafa vaxið hratt á þessu sviði og nú höfum við aðgang að miklu magni af gögnum og tölfræði. Þrátt fyrir að þekkingin sé til staðar, hjá vísindamönnum og fræðimönnum, þá tekur alltaf tíma að miðla vitneskjunni til þjálfara og kennara. Þekking er fyrirbæri sem tekur breytingum en stundum geta tuttugu ára gamlar skoðanir verið góðar og gildar og stundum ekki,“ sagði Dr. Tonkonogi og bætti við:

„Það er einfaldlega gott fyrir börn og unglinga að auka líkamlegan styrk. Aldrei er þó gott að þvinga þau til þess en um leið og þeim þykir styrktarþjálfun skemmtileg þá virkar hún vel. Ég sé það hjá 11-12 ára krökkum að þegar þau komast í slíka aðstöðu þá hafa þau gaman að því að lyfta, toga og klifra sem dæmi. Er það bara í góðu lagi á meðan þau hafa gaman af því.“

Sjá meira um málið í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert