23 þjóðir keppa í badminton

Margrét Jóhannsdóttir náði bestum árangri Íslendinga á mótinu í fyrra …
Margrét Jóhannsdóttir náði bestum árangri Íslendinga á mótinu í fyrra en hún komst í 8 liða úrslit í einliðaleik og tvíliðaleik með Söru Högnadóttur. Sportmyndir.is

Íþróttaleikarnir WOW Reykjavik International Games hefjast fimmtudaginn 26. janúar en þetta er í 10. sinn sem þeir fara fram. Það eru keppendur í badminton sem ríða á vaðið en þeir etja kappi í TBR-húsinu við Gnoðarvog.

Mjög góð þátttaka er á badmintonmótinu, 88 erlendir keppendur frá 22 þjóðlöndum auk 38 íslenskra keppenda. Mótið er hluti af Evrópumótaröðinni og gefur stig á heimslista sem gerir það mjög eftirsóknarvert fyrir erlenda keppendur sem auk þess berjast um 8.000 dollara verðlaunafé.  

Sigurvegarinn frá því í fyrra, Kim Bruun frá Danmörku, sem er númer 60 á heimslistanum, er talinn líklegastur til sigurs í einliðaleik karla. Í einliðaleik kvenna er Georgina Bland frá Englandi sigurstranglegust en margir aðrir keppendur eru þó á svipuðum slóðum og hún á heimslistanum. Einnig er keppt í tvíliðaleik karla þar sem þýskt par trónir á toppnum yfir líklega sigurvegara og tvíliðaleik kvenna þar sem par frá Litháen er metið sterkast. Í tvenndarleik er franskt par sem er númer 59 á heimslistanum langlíklegast til afreka.

Keppni hefst fimmtudaginn 26. janúar klukkan 10 með forkeppni í einliðaleik karla og kvenna. Aðalkeppnin hefst á föstudaginn klukkan 9 og keppt er látlaust til klukkan 22:00 um kvöldið. Átta liða úrslit fara fram á laugardagsmorguninn og eftir hádegi fara fram undanúrslit. Á sunnudaginn er leikið til úrslita frá klukkan 10 en RÚV sýnir frá úrslitaleikjunum. Smellið hér til að skoða nánari niðurröðun og tímasetningar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert