Líklega sterkasta mótið frá upphafi

Það verður júdóveisla í Laugardalshöll næsta laugardag.
Það verður júdóveisla í Laugardalshöll næsta laugardag. Sportmyndir.is

Júdókeppni WOW Reykjavik International Games fer fram í Laugardalshöllinni á laugardaginn og telja forsvarsmenn keppninnar að líklega sé um að ræða sterkasta mótið frá upphafi. Rúmlega 30 erlendir keppendur frá sjö löndum taka þátt auk besta júdófólks landsins.

Á meðal keppenda er Svíinn Marcus Nyman sem er í öðru sæti heimslistans og keppti um bronsverðlaunin á Ólympíuleikunum í Ríó síðasta sumar. Þá vann hann fjölda stórmóta á árinu 2016 og er fyrrverandi Evrópumeistari. Einnig eru á meðal keppenda breskur meistari í -60 kg flokknum, bronsverðlaunahafi frá EM 2016 og bronsverðlaunahafi frá Grand Slam 2016 svo nokkrir séu nefndir.

Mestan áhuga júdófólks vekur hins vegar heimsókn núverandi ólympíu- og heimsmeistara og fyrrum Evrópumeistara í -100 kg flokknum, Lukas Krpalek frá Tékklandi. Hann verður með æfingabúðir í Reykjavík daginn eftir mótið ásamt þjálfara sínum og tékkneska landsliðsins, Petr Lacina.

Keppnin í júdó hefst klukkan 10 á laugardaginn og stendur til klukkan 17. Íþróttaáhugafólk ætti ekki að missa af þessari miklu júdóveislu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert