Hefur verið frábær vetur

Frá skylmingarkeppninni á Reykjavíkurleikunum í gær.
Frá skylmingarkeppninni á Reykjavíkurleikunum í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Ríkjandi Íslandsmeistarar í skylmingum með höggsverði, Aldís Edda Ingvarsdóttir og Andri Mateev, voru höggskörpust á Reykjavíkurleikunum þegar skylmst var í gær.

Aldís átti sjálf titil að verja á mótinu, en hún vann Þórdísi Ylfu Viðarsdóttur, 15:10, í úrslitaviðureigninni.

„Við erum rosalega jafnar og reynum alltaf að taka flottan og góðan bardaga. Þetta er oftast jafnt og skemmtilegt. Við höfum æft saman síðan við vorum 12 ára, erum alltaf saman á æfingum og kunnum mjög vel hvor á aðra. Á brautinni erum við andstæðingar en bestu vinkonur utan brautar,“ sagði Aldís, en þær Þórdís hafa skarað fram úr í kvennaflokki hér á landi síðustu ár og eru miklar vinkonur. Þegar úrslitaleikurinn í gær var hálfnaður deildu þær meira að segja vatnsflösku í rólegheitunum áður en þær héldu áfram að berja hvor á annarri.

Aldís hefur átt góðu gengi að fagna í vetur. Hún vann silfur á Norðurlandamótinu í október, vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í fullorðinsflokki í nóvember og var útnefnd skylmingakona ársins í desember.

„Það var algjör hápunktur, þetta er búinn að vera frábær vetur,“ sagði Aldís, sem er á þriðja ári í sjúkraþjálfunarnámi og krefst það mikillar skipulagningar að samtvinna krefjandi nám með afreksíþróttamennsku. En af hverju er hún að ná slíkum hæðum nú í vetur?

„Ég hef verið að einbeita mér aðeins meira á æfingum og taka þetta eftir skýrum markmiðum. Ég stefndi á Íslandsmeistaratitilinn og ætlaði að verða Norðurlandameistari, en það gerist bara vonandi núna í ár,“ sagði Aldís.

Sjá allt viðtalið við Aldísi og meira um Reykjavíkurleikana í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert