Vildi vinna á heimavelli

Aníta Hinriksdóttir fyrir miðju.
Aníta Hinriksdóttir fyrir miðju. mbl.is/Árni Sæberg

Árangur Anítu Hinriksdóttur úr ÍR og Örnu Stefaníu Guðmundsdóttur úr FH stóð upp úr í frjálsíþróttakeppni Reykjavíkurleikanna í Laugardalshöll í gær. Aníta setti Íslandsmet og Arna vann sér inn keppnisrétt á EM innanhúss.

Aníta bætti eigið Íslandsmet í 800 metra hlaupi þegar hún hljóp á 2:01,18 mínútum en Arna hljóp 400 metra hlaup á 53,83 sekúndum. Eins og staðan er núna verða þær fulltrúar Íslands á EM í Belgrad eftir liðlega mánuð.

Aníta setti fimm erlenda keppinauta frá Hollandi, Noregi og Svíþjóð aftur fyrir sig í hlaupinu en eldra met hennar frá því í Prag árið 2015 var 2:01,56 mínútur.

„Ég er mjög ánægð með tímann. Ég áttaði mig ekki á því hversu hratt hlaup þetta var fyrr en eftir á. Ég hafði mjög gaman af þessu hlaupi og í þetta skiptið var ég í rauninni meira að hugsa um að vinna hlaupið heldur en tímann sjálfan. Af því að ég var á heimavelli þá fannst mér vera númer eitt, tvö og þrjú að sigra í greininni. En við settum þetta upp með „héra“ til að halda uppi hraðanum og þá vissi ég svo sem að hlaupið gæti orðið hratt. Ég er ánægð með samkeppnina enda held ég að þrjár þeirra hljóti að vera gjaldgengar á EM ef ekki allar og þetta gat ekki verið betra,“ sagði Aníta þegar Morgunblaðið spjallaði við hana í Laugardalshöllinni.

Sjá allt viðtalið við Anítu í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert