Fyrstu Smáþjóðaleikar Jakobs

Jakob Örn Sigurðarson í leiknum gegn Andorra í kvöld.
Jakob Örn Sigurðarson í leiknum gegn Andorra í kvöld. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Jakob Örn Sigurðarson lék í kvöld sinn 70. A-landsleik þegar Ísland vann Andorra 83:61 í fyrsta leik liðsins á Smáþjóðaleikunum. Jakob var jafnframt að leika sinn fyrsta leik á Smáþjóðaleikum. 

„Jú ég fer á mína fyrstu Smáþjóðaleika þegar þeir eru haldnir hérna á Íslandi. Ég missti af tveimur þegar ég var í námi í Bandaríkjunum. Einhvern veginn hefur þetta æxlast svona að ég hef ekki verið með á Smáþjóðaleikum,“ sagði Jakob þegar mbl.is ræddi við hann í Laugardalshöllinni í kvöld en Jakob skoraði 6 stig í leiknum og gaf 3 stoðsendingar. 

„Það er mjög gaman að fá að upplifa leikana svona einu sinni og taka þátt í þessu. Það er skemmtileg stemning í kringum þetta,“ sagði Jakob en körfuboltalandsliðið getur heldur betur notfært sér leikana í ár þar sem liðið fer í lokakeppni EM í september. 

„Það er frábært að það séu Smáþjóðaleikar akkúrat í ár. Það gefur okkur auka leiki og auka tíma til að hittast og spila saman. Vonandi gengur okkur betur í hverjum leik. Við vorum fínir í kvöld fannst mér þó við getum gert mikið betur. Okkar takmark er að bæta okkur í hverjum leik,“ sagði Jakob enda er mikil samkeppni um sætin tólf í hópnum sem fer á EM.

„Að sjálfsögðu. Það vilja allir vera með á EM sem er jákvætt. Þetta verða hörkuæfingar og skemmtilegt verkefni að taka þátt í,“ sagði Jakob ennfremur við mbl.is.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert