Fremur róleg laxveiði á NA-landi

Glíma við stórlax í Fugleyrarmelshyl í Hölkná í vikunni í …
Glíma við stórlax í Fugleyrarmelshyl í Hölkná í vikunni í miklum vatnavöxtum. ÞGÞ

Laxveiðin byrjaði ágætlega á Norðausturlandinu, en svo dró úr henni þegar leið á enda kom í ljós að lítið af smálaxi skilaði sér úr hafi.

Síðustu dagar hafa verið fremur erfiðir á þessum slóðum vegna mikillar rigningar og árnar orðnar bólgnar af vatni, auk þess sem lofthiti hefur verið lítill. Næstu daga spáir hins vegar skaplegra veðri og því gæti veiðin tekið kipp síðustu daga veiðitímans en veiði lýkur á flestum stöðum rétt eftir 20. september.

Í Deildará á Sléttu, skammt við Raufarhöfn, eru komnir 210 laxar á land í heildina sem leigutakar segja ásættanleg veiði, þó verri veiði en í fyrra þegar 303 komu á land.  Í næsta nágrenni, í Ormarsá , eru komnir 440 í bók og náði síðasta þriggja daga holl þar 11 löxum á þurrt við erfið skilyrði. Þetta er mun verri veiði en í fyrra þegar 851 lax veiddist og reyndist metveiði. Stærsti laxinn til þessa er 101 cm.

Í Svalbarðsá í Þistilfirði eru um 350 laxar komnir á land sem er svipað og í Sandá þar sem veiði hefur verið fremur róleg þar eftir góða byrjun fram eftir júlí. Í báðum þessum ám var metveiði í fyrra og veiddust í Sandá 531 og Svalbarðsá 738.

Þá er samkvæmt síðustu fréttum búið að skrá 128 laxa úr Hölkná þar sem veitt er á tvær stangir en skilyrði til veiði að undanförnu hafa verið erfið vegna vatnavaxta.  Þetta er aðeins undir meðalveiði síðustu ára. Stærsti laxinn það sem af er er 101 cm sem veiddist á efsta veiðstað upp við Geldingafoss.

Samkvæmt upplýsingum frá Marinó Jóhannssyni, á Tunguseli við Hafralónsá, hefur veiðin verið döpur þar í sumar eins og í fyrra. Marinó sagði rétt rúmlega 200 laxa komna á land og sagðist hann telja að mikil afföll hafi orðið á niðurgönguseiðum í kjölfar vorkulda síðustu ára og það væri skýring á dapri veiði í ár. 

Marinó sagði að mikill snjór hafi hlaðist upp á hálendinu síðustu árin og miklir vatnavextir og leysingar staðið langt fram á sumar.  Hafralónsá er stærsta vatnsfallið sem fellur í Þistilfjörð og það tæki stærri árn­ar nán­ast allt sum­arið að bræða þennan mikla snjó og því væri vatns­hiti lægri fyr­ir vikið og fæðufram­boð fyr­ir seiðin ekki nægj­an­lega gott. Vísaði Marínó til þess að svipað ástand sé búið að vera í Selá og Hofsá í Vopnafirði sem væru vatnsföll af svipaðri stærð og Hafralónsá.

Benedikt Helgason með 90 cm hæng úr Fugleyrarmelshyl í Hölkná.
Benedikt Helgason með 90 cm hæng úr Fugleyrarmelshyl í Hölkná. ÞGÞ
mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert