Íslandsvinur fallinn frá

Bill Young.
Bill Young.

Bandaríski veiðimaður og Íslandsvinurinn Wiliam J. Young lést 20. október síðastliðinn eftir langa baráttu við krabbamein, en hann veiddi á Íslandi um áratugaskeið, einkum í Laxá í Aðaldal.

Bill, eins og hann var yfirleitt kallaður, veiddi á Nessvæðinu í Laxá um áratugaskeið og var Pétur Steingrímsson á Nesi yfirleitt með honum í för. Pétur er fæddur 1929 hefur verið búsettur meirihluta ævinnar á bökkum árinnar og er veiðimennskan Pétri því í blóð borin og hefur hann veitt sjálfur á flugu í rúm 70 ár. Að auki er Pétur þekktur fluguhnýtari og hefur í gegnum áratugi hannað margar þekktar laxaflugur. Á milli þeirra mynduðust tengsl og mikil vinátta og hannaði Pétur vel þekkta flugu sem heitir Bill Young.

Í viðtali við Morgunblaðið árið 1996 sagði Pétur söguna á bak við hönnun flugunnar tveimur árum áður. „Mig dreymdi að ég væri að veiða hér austur í Laxá,“ segir Pétur. „Það tekur lax hjá mér, ég dreg hann í land, losa úr honum og sleppi eins og ég geri gjarnan. Síðan fer ég að skoða fluguna. Þá er það fluga sem ég hef aldrei nokkurn tímann séð og ég setti vel á mig hvernig litirnir í henni voru og hvernig hún var byggð upp. Daginn eftir hnýti ég þessa flugu. Þetta var að vetri til og nógur tími til að rifja upp hvernig hún var, en það var dálítið flókið. Síðan skírði ég þessa flugu í höfuðið á vini mínum, Bill Young.“

Pétur hnýtti fáein eintök og sendi Bill og sagði að Bill hefði þótt fjarska vænt um þetta vinarbragð. Um vorið hefði Bill Young farið í lax til Noregs og þegar hann dró upp nýju fluguna frá Pétri vakti hún hlátur þarlendra leiðsögumanna sem vildu alls ekki setja hana á og höfðu enga trú á henni. Fór þó svo að Bill fékk fimm af sjö löxum á fluguna og alla þá stærstu, þótt hann notaði hana ekki nema svona tvo klukkutíma á dag.

Seinna um sumarið fékk Bill Young alla laxana sína í Laxá, átta stykki, á þessa flugu og þó var veiðin léleg það sumarið.

Pétur kvaðst enga skýringu hafa á því hvernig stóð á því að hann dreymdi þessa flugu eða hver hefði sýnt honum hana í draumnum. Bill Young-flugan er þó mjög frábrugðin hefðbundnum laxaflugum og hún krefst mikillar handavinnu.  Pétur hnýtir þessa flugu á allt frá smáum önglum og upp í þriggja tommu túbur. Hann kvaðst í umræddu viðtali vera allt að hálftíma að hnýta hverja flugu og þó væri hann með vanari mönnum.

Bill Young túpa úr smiðju Péturs Steingrímssonar.
Bill Young túpa úr smiðju Péturs Steingrímssonar. Pétur Steingrímsson
mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert