Aukin bjartsýni meðal neytenda samkvæmt Væntingavísitölu Gallup

mbl.is/Júlíus

Tiltrú neytenda á horfum í efnahagsmálum hefur vaxið á ný samkvæmt Væntingavísitölu Gallup sem birt var í morgun og snarhækkaði frá fyrri mánuði. Stendur vísitalan nú í 119,6 stigum en fór lægst í 88,1 stig í júlímánuði. Vísitölugildi yfir 100 stigum táknar að fleiri neytendur séu bjartsýnir en svartsýnir.

Í Morgunkorni Glitnis kemur fram að neytendur virðast hafa tekið gleði sína að nýju þrátt fyrir gengisfall krónunnar, verðbólguskotið sem fylgdi í kjölfarið og útlit fyrir minnkandi vöxt hagkerfisins á næstu misserum.

Væntingar neytenda til ástandsins eftir sex mánuði hafa breyst verulega til batnaðar á síðustu vikum. Telja nú örlítið fleiri neytendur að efnahagsástandið verði betra að þeim tíma loknum en að það verði verra.

Færri telja hins vegar að atvinnumöguleikar sínir verði meiri eftir sex mánuði en þeir sem telja að möguleikar sínir verði minni. Erfitt er að finna góða skýringu á aukinni bjartsýni neytenda í ljósi þess geysilega viðskiptahalla og annarra birtingarmynda ójafnvægis sem einkenna hagkerfið um þessar mundir og krefjast leiðréttingar, að því er segir í Morgunkorni Glitnis.

„Svo virðist sem kaupgleði neytenda sé enn ríkjandi. Til dæmis virðist sem neytendur séu ekki hættir bílakaupum sínum ef marka má vísitölu sem mælir fyrirhuguð kaup neytenda á bifreiðum. Vísitalan er nú hærri en á sama tíma í fyrra þótt hún hafi lækkað nokkuð síðustu mánuðina. Rímar þessi niðurstaða illa við þann samdrátt sem orðið hefur í innflutningi nýrra bíla að undanförnu. Einnig er mikið um fyrirhugaðar utanlandsferðir hjá neytendum um þessar mundir. Telja um 80% neytenda mjög eða frekar líklegt að þeir ferðist til útlanda á næstu tólf mánuðum. Raunar er núna aðeins meira um fyrirhugaðar utanlandsferðir hjá neytendum en á sama tíma í fyrra og kemur það nokkuð á óvart í ljósi gengisfalls krónunnar á fyrri hluta ársins," samkvæmt Morgunkorni Glitnis.

Fyrirhuguð húsnæðiskaup neytenda hafa þó dregist umtalsvert saman að undanförnu samkvæmt könnun Gallup. Aðeins 5,6% neytenda telja nú frekar eða mjög líklegt að þeir kaupi hús eða íbúð á næstu sex mánuðum. Til samanburðar töldu 10% neytenda frekar eða mjög líklegt að þeir myndu kaupa hús eða íbúð á næsta hálfa ári í marsmánuði síðastliðnum. Vísitalan sem mælir fyrirhuguð húsnæðiskaup neytenda hefur ekki verið lægri frá því mælingar á henni hófust um mitt árið 2002. Vísitalan er nú nær helmingi lægri en þegar hún stóð hæst í mars á þessu ári og er einnig talsvert lægri en hún var á sama tíma í fyrra. Þetta rímar við minnkandi veltu á íbúðamarkaði á síðustu mánuðum og það útlit sem er fyrir þrýsting til verðlækkunar íbúða á næstu misserum, að því er segir í Morgunkorni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK