Jón Ásgeir Jóhannesson nýr stjórnarformaður 365

Jón Ásgeir Jóhannesson
Jón Ásgeir Jóhannesson mbl.is

Lokað verður fyrir viðskipti með hlutabréf Dagsbrúnar í dag vegna skipta á hlutabréfum Dagsbrúnar fyrir hlutabréf í 365 (áður Dagsbrún) og Teymi en samþykkt var á hluthafafundi Dagsbrúnar í morgun að breyta nafni félagsins í 365. Ný stjórn var kjörin fyrir félagið á fundinum. Þórdís Sigurðardóttir er farin út úr stjórn félagsins og Jón Ásgeir Jóhannesson er nýr stjórnarformaður félagsins. Ari Edwald er forstjóri þess.

Í stjórn 365 voru kjörnir: Jón Ásgeir Jóhannesson, Magnús Ármann, Pálmi Haraldsson, Árni Hauksson og Þorsteinn M. Jónsson. Varamenn eru Matthías Imsland og Soffía Lárusdóttir. Að loknum hluthafafundi 365 hf. var haldinn stjórnarfundur 365 hf. Jón Ásgeir Jóhannesson var kjörinn formaður stjórnar. Stjórn ákvað að ráða Ara Edwald sem forstjóra félagsins.

Eftirfarandi tillögur voru samþykktar á hluthafafundi Dagsbrúnar hf. (nú 365 hf.) 17. nóvember 2006:

Tillaga um skiptingu félagsins:

Tillaga um að Dagsbrún hf. verði í samræmi við skiptingaráætlun félagsins dags. 12. september 2006 og með vísan til ákvæða XIV. kafla laga nr. 2/1995, um hlutafélög, skipt upp í tvö rekstrarfélög sem bæði verði skráð í Kauphöll Íslands. Félögin verði annars vegar fjölmiðlafélag, 365 hf., og hins vegar fjarskipta- og upplýsingatæknifélag, Teymi hf.

Tillögur um eftirfarandi breytingar á samþykktum félagsins:

a) Að nafni félagsins verði breytt í 365 hf. Grein 1.01 í samþykktum félagsins verði svo hljóðandi: „Heiti félagsins er 365 hf.“

b) Að heimili félagsins verði breytt í Skaftahlíð 24, 105 Reykjavík. Grein 1.03 í samþykktum félagsins verði svo hljóðandi: „Heimili félagsins er að Skaftahlíð 24, 105 Reykjavík.“

c) Að tilgangi félagsins verði breytt. Grein 1.04 í samþykktum félagsins verði svo hljóðandi: „Tilgangur félagsins er að ávaxta fé sem hluthafar hafa bundið í starfseminni með rekstri í félaginu og fjárfestingum í dóttur- og hlutdeildarfélögum sem einkum starfa á vettvangi fjölmiðlunar, afþreyingar og skyldrar starfsemi.“

d) Að hlutafé félagsins verði breytt í samræmi við skiptingaráætlun félagsins. Grein 2.01.1 í samþykktum félagsins verði svo hljóðandi: „Heildarhlutafé félagsins er kr. 3.286.671.824 (krónur þrír milljarðar tvö hundruð áttatíu og sex milljónir sex hundruð sjötíu og eitt þúsund átta hundruð tuttugu og fjórar). Engar hömlur eru settar við ráðstöfun hluthafa á hlutabréfum í félaginu.“

e) Að grein samþykkta félagsins um rafræna skráningu hluta félagsins verði breytt. Grein 2.07 í samþykktum félagsins verði svo hljóðandi:

„Hlutabréf félagsins skulu gefin út með rafrænum hætti í verðbréfamiðstöð í samræmi við lög nr. 131/1997, um rafræna eignaskráningu verðbréfa. Þegar hluthafi hefur greitt hlut sinn að fullu til félagsins fær hann útgefið rafbréf í verðbréfamiðstöð og eignaréttindi skráð yfir því og veitir það honum full réttindi, þau er samþykktir félagsins mæla fyrir um. Útskrift frá verðbréfamiðstöð um eignarhald á hlutum í félaginu telst fullnægjandi hlutaskrá.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK