Íslenskir neytendur aldrei bjartsýnni

mbl.is

Íslenskir neytendur eru afar bjartsýnir þessa dagana og áforma stórkaup í meira mæli en nokkru sinni frá því að mælingar á Væntingavísitölu Gallup hófst. Lægra gengi krónu, mikil verðbólga, takmarkaðra aðgengi að lánsfé og gagnrýnin umfjöllun erlendra aðila um íslenskt efnahagslíf virðast því hrökkva af neytendum eins og vatn af gæs.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis þar sem fjallað er um nýja mælingu Væntingavísitölu Gallup. Gildi væntingavísitölunnar er 144,1 sem er næst hæsta mæling frá upphafi, en hæsta gildi vísitölunnar mældist í síðasta mánuði.

Helstu undirvísitölur Væntingavísitölunnar lækka allar lítillega milli mánaða en eru þó nærri sínum hæstu gildum, hvort sem litið er til mats á núverandi ástandi, væntinga til 6 mánaða, mats á efnahagslífinu eða skoðunar á atvinnuástandinu.

Verulegt bakslag varð í væntingum neytenda á vordögum í fyrra, einkum mati neytenda á aðstæðum að sex mánuðum liðnum, enda gekk þá mikið á í íslensku efnahagslífi. Gengi krónu hafði lækkað snarpt, verð hlutabréfa sömuleiðis og verðbólga var á hraðri uppleið. Síðan hafa íslenskir neytendur jafnt og þétt endurheimt fyrri bjartsýni og virðast litlar áhyggjur hafa af stöðu og horfum í hagkerfinu um þessar mundir, samkvæmt Morgunkorni.

„Stórkaupavísitala Gallup, sem birt er ársfjórðungslega, er einnig til vitnis um mikla bjartsýni hjá íslenskum neytendum. Mældist hún hærri en nokkru sinni áður í þessum mánuði. Raunar er lítill munur á gildi stórkaupavísitölunnar nú og í sama mánuði 2005 og 2006, en nokkur árstíðasveifla er í henni. Athygli vekur að landsmenn áforma nærri jafn mikil bifreiðakaup og raunin var 2005, en þá var bifreiðainnflutningur geysimikill. Í því sambandi er raunar rétt að benda á að fyrir ári mældist vísitala fyrirhugaðra bifreiðakaupa jafnhá og nú, en í kjölfarið dró þó verulega úr bifreiðasölu. Sömuleiðis virðist töluverður hluti neytenda hugsa sér til hreyfings í húsnæðismálum, en fyrirhuguð húsnæðiskaup mælast hærri nú en nokkurn tíma fyrr. Gæti það bent til þess að aukið líf muni færast í húsnæðismarkað með hækkandi sól.

Frá því Gallup hóf birtingu Væntingavísitölunnar hefur töluvert sterk fylgni verið milli vísitölunnar og breytinga á einkaneyslu, a.m.k. fram á mitt síðasta ár. Raunar hefur allsterkt samband einnig verið milli þessara tveggja stærða og gengisþróunar.

Á seinni hluta nýliðins árs varð þó breyting á sambandi Væntingavísitölu og einkaneyslu, þar sem vísitalan hækkaði hratt en vöxtur einkaneyslu var sáralítill. Verður fróðlegt að sjá hvort vægi Væntingavísitölunnar sem framsýns kvarða á þróun einkaneyslu er að minnka, eða hvort rofið á sambandi vísitölunnar og einkaneyslu er tímabundið. Það er í öllu falli ljóst að ef marka má þróun Væntingavísitölunnar og stórkaupavísitölunnar undanfarið virðast íslenskir neytendur heldur vera á þeim buxunum að bæta í neyslu sína fremur en herða beltið," samkvæmt Morgunkorni Glitnis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK