Lárus tekur við af Bjarna sem forstjóri Glitnis

Lárus Welding hefur verið ráðinn forstjóri Glitnis og tekur við starfinu af Bjarna Ármannssyni sem hefur gegnt starfi forstjóra síðasta áratug. Segir í tilkynningu frá Glitni að þeir Lárus og Bjarni muni heimsækja starfsstöðvar bankans og hitta starfsfólk auk þess að heimsækja matsfyrirtæki, greiningaraðila og fjölmiðla. Þorsteinn M. Jónsson var kjörinn stjórnarformaður Glitnis á stjórnarfundi nú síðdegis.

Lárus segir í tilkynningunni, að hann muni halda áfram að byggja á sérfræðiþekkingu starfsmanna bankans á heimamörkuðum hans, Íslandi og Noregi, auk þess að halda áfram að styrkja stöðu hans á sviði fjármála- og bankastarfsemi á Norðurlöndum og í Bretlandi. Hann styðji heilshugar stefnu bankans á alþjóðamarkaði þar sem áhersla hafi verið lögð á sérfræðiþekkingu á sviði matvælaiðnaðar, þjónustuskipa við olíuiðnað og sjálfbæra orkuvinnslu. Einnig hafi bankinn lagt áherslu á alþjóðlega bankaþjónustu við viðskiptavini af heimamörkuðum sem og sértæka þjónustu í Norður-Evrópu. Þessi skýra stefna hafi rennt styrkum stoðum undir bankann á afar hörðum samkeppnismarkaði í Evrópu og á alþjóðavettvangi.

Bjarni Ármannson segir í tilkynningunni, að þeir Lárus muni vinna sameiginlega að því að forstjóraskiptin gangi greiðlega fyrir sig og verði til heilla fyrir starfsfólk, hluthafa og viðskiptavini.

Lárus Welding er viðskiptafræðingur frá Háskóla Ísland, löggiltur verðbréfamiðlari og með próf í fjármálum frá UK Securities Institute í Bretlandi. Hann hefur verið framkvæmdastjóri Landsbanka Íslands í Lundúnum frá 2003 en hann hóf starfsferil sinn innan bankakerfisins á fyrirtækjasviði Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, síðar síðar Íslandsbanka-FBA og loks Glitnis, árið 1999. Lárus er giftur Ágústu Ólafsdóttur og eiga þau tvær dætur, sjö ára og eins árs.

Nýja stjórn Glitnis skipa Björn Ingi Sveinsson, Haukur Guðjónsson, Jón Sigurðsson, Katrín Pétursdóttir, Pétur Guðmundarson, Skarphéðinn Berg Steinarsson og Þorsteinn M. Jónsson sem er formaður.

Lárus Welding.
Lárus Welding. mbl.is/Skapti
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK