Segja aðgerðir Seðlabanka skaða atvinnulíf

Stjórnarráð Íslands.
Stjórnarráð Íslands. mbl.is/Jim Smart

Framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins átti í morgun fund með forsætisráðherra og utanríkisráðherra til að leggja áherslu á að ríkisstjórnin taki þegar á þeim vanda sem stjórn peningamála og hagstjórnin hafi ratað í. Segja samtökin, að aðgerðir Seðlabankans skaði atvinnulíf án þess að skila árangri á móti og að bankinn muni ekki að óbreyttu um fyrirsjáanlega framtíð eiga möguleika á því að lækka vexti.

Samtök atvinnulífsins segja, að fyrstu aðgerðir verði að beinast að því að skapa forsendur fyrir lækkandi verðbólgu. Hafa verði hemil á aukningu samneyslu og tilfærsluútgjalda. Lækka verði lánshlutföll Íbúðalánasjóðs og lánsfjárhæðir. Þá þurfi ríkisstjórnin að senda Seðlabankanum skýr boð um að hún ætlist til þess að bankinn vinni ekki gegn trúverðugleika efnahagsstefnunnar og gegn væntingum um lægri verðbólgu. Það gefi Seðlabankanum tækifæri til þess að komast úr sjálfheldu hárra vaxta og veki von um að gengi krónunnar verði stöðugra og lægra en nú og þannig meira í takt við getu atvinnulífsins og stöðuna í viðskiptum við útlönd.

Þá segja Samtök atvinnulífsins, að tilraunir Seðlabankans til þess að hafa hemil á verðbólgu með vaxtahækkunum hafi sýnt að þetta tæki bankans dugi lítið sem ekkert í þeirri viðleitni. Ástæðurnar séu fyrst og fremst þær, að markaðshlutdeild óverðtryggðrar krónu sé orðin mjög lítil í lánakerfinu og að hlutdeild erlendra lána fer sífellt vaxandi. Enda reyni flestir sem geta að taka erlend lán og flýja krónuna.

„Viðvarandi háir vextir grafa þannig undan krónunni sem gjaldmiðli. Almennt á vaxtatækið að virka beint á einkaneyslu og fjárfestingar fyrirtækja og draga þannig úr eftirspurn. En þetta á aðeins í takmörkuðum mæli við í hagkerfi eins og því íslenska þar sem tiltölulega lítill hluti hagkerfisins er háður vöxtum í eigin gjaldmiðli. Seðlabankinn hefur t.d. lýst gengi krónunnar sem helsta miðlunartæki peningastefnunnar hér á landi sem gengur út á það að háir vextir eigi að hækka gengið, beina eftirspurn út úr hagkerfinu og draga svo mikið úr tekjumyndun í útflutnings- og samkeppnisgreinum að það hafi líka áhrif á eftirspurn. En gjaldeyrismarkaðurinn virðist hegða sér þannig að gengi krónunnar lækkar löngu áður en slík eftirspurnaráhrif koma fram. Þegar markaðsaðilum finnst að of mikið sé kreppt að þessum atvinnugreinum hætta þeir að taka mark á Seðlabankanum og gengið lækkar þrátt fyrir himinháa vexti. Ennfremur hefur aukin alþjóðavæðing íslenska fjármálamarkaðarins þýtt að háir vextir skapa nægt framboð erlendis frá af lánsfé í íslenskum krónum með svokölluðum jöklabréfum en virðast ekki hafa laðað fram teljandi aukningu á sparnaði innlendra aðila," segir m.a. í bréfi, sem forsætisráðherra var afhent.

Fréttabréf Samtaka atvinnulífsins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK