Flótti fjármagns frá hlutabréfamörkuðum erlendis

Eftir Bjarna Ólafsson

bjarni@mbl.is

Hlutabréfamarkaðir um heim allan lækkuðu töluvert í gær þegar fjárfestar fluttu fé sitt frá hlutabréfum í öruggari fjárfestingar eins og skuldabréf. Í Bandaríkjunum lækkaði Dow Jones vísitalan um 2,26% og Nasdaq um 1,84%. Í Evrópu lækkaði þýska DAX vísitalan um 2,39%, franska CAC40 vísitalan um 2,78% og breska FTSE vísitalan um 3,15%.

Í frétt Financial Times segir að lækkunarferlið hafi hafist með lækkun á gengi hlutabréfa í fjárfestingarbönkum, en bankarnir hafa skuldbundið sig til að fjármagna mikinn fjölda yfirtaka en eiga í auknum erfiðleikum með að afla fjármagns til að standa við þær skuldbindingar. Má þar nefna sem dæmi að ómögulegt hefur reynst að finna fjárfesta til að fjármagna yfirtökuna á Chrysler bílaframleiðandanum og mun JPMorgan Chase bankinn því þurfa að leggja fram 10 milljarða dala af eigin fé í verkefnið.

Alls er talið að skuldbindingar stærstu fjárfestingarbankanna til næstu missera, sem enn eigi eftir að fjármagna af þeirra hálfu, nemi yfir 300 milljörðum dala, eða um 18.000 milljörðum króna.

Auk þessa hafa fjárfestar áhyggjur af áhrifum hækkandi olíuverðs á hagkerfi heimsins og þá hefur samdráttur á bandaríska fasteignamarkaðnum einnig áhrif í sömu átt. Vegna þessa flótta frá hlutabréfum til öruggari fjárfestinga lækkaði ávöxtunarkrafa á fjölda ríkisskuldabréfa í gær.

Norrænir markaðir fóru ekki varhluta af hreyfingunum, en sænska OMX vísitalan lækkaði um 3,42% í gær, sú danska um 1,98% og sú finnska um 2,12%. Íslenska ICEX vísitalan lækkaði um 0,82%.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK