Stýrivextir Seðlabankans væntanlega komir niður undir 4% 2009

Davíð Oddsson Seðlabankastjóri
Davíð Oddsson Seðlabankastjóri Ómar Óskarsson

Í verðbólguspá Seðlabanka Íslands sem birt er í Peningamálum gerir ráð fyrir því að verðbólgumarkmið bankans náist innan ásættanlegs tíma, þ.e. á þriðja ársfjórðungi 2009. Þar kemur fram að stýrivextir muni haldast óbreyttir fram yfir mitt næsta ár en eftir það lækka fremur hratt og verða komnir niður undir 4% árið 2009. Þetta kom fram í máli Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands á fundi með blaðamönnum þar sem kynntar voru forsendur fyrir stýrivaxtahækkun Seðlabanka Íslands um 0,45 prósentur í 13,75%.

„Verðbólga hefur aukist á ný að undanförnu og horfur á að hún verði meiri á þessu ári og því næsta en fólst í fyrri spám. Stýrivextirnir sem byggt var á við spágerð bankans í júlí sl. duga ekki til að vinna nógu hratt bug á verðbólgu og draga úr verðbólguvæntingum," sagði Davíð.

Að sögn Davíð sýnir ákvörðun bankastjórnar um að hækka vexti nú þegar um 0,45% einbeittan vilja um aðhald. Hún breytir ekki vaxtaferli grunnspárinnar að öðru leyti en því að vaxtahækkunin kemur til framkvæmda í einum áfanga í stað tveggja líkt og grunnspá bankans fól í sér en samkvæmt henni var gert ráð fyrir 0,2% hækkun á stýrivöxtum nú og 0,25% hækkun í desember.

Fjárfesting hins opinbera hefur vaxið stórlega þvert á fyrirheit og væntingar

„Vísbendingar sem birst hafa frá útgáfu síðustu Peningamála og einkum eftir vaxtaákvörðun bankastjórnar 6. september sl. sýna að eftirspurn hefur vaxið hraðar en búist var við í júlí. Einnig er fram komið að hagvöxtur var meiri á síðasta ári en áætlanir gerðu ráð fyrir. Einkaneysla jókst á öðrum fjórðungi þessa árs og vísbendingar eru um enn hraðari vöxt hennar á hinum þriðja.

Fjármunamyndun hefur verið meiri í fyrra og í ár en áður var talið. Fjárfesting hins opinbera hefur vaxið stórlega, þvert á fyrirheit og væntingar.

Langvarandi umframeftirspurn hefur valdið viðvarandi vinnuaflsskorti og launaskriði auk þess sem launakostnaður á framleidda einingu virðist hafa hækkað meira í fyrra en áður var talið. Á þessu ári og hinu síðasta hafa ráðstöfunartekjur vaxið óvenju hratt, með launahækkunum og skattalækkunum. Fasteignaverð hækkar ört sem skýrir að töluverðu leyti vaxandi verðbólgu að undanförnu. Vextir Íbúðalánasjóðs fylgja ekki að fullu vaxtabreytingum á markaði og stuðlar það að meiri hækkun fasteignaverðs en ella," sagði Davíð.

Gengi krónunnar gæti lækkað verulega ef aðstæður á erlendum mörkuðum versna að ráði

Gengi krónunnar veldur sem fyrr óvissu um verðbólguhorfur til næstu ára. Hátt raungengi og horfur á áframhaldandi skuldasöfnun þjóðarbúsins veikja undirstöður krónunnar. Gengi hennar gæti lækkað verulega ef aðstæður á alþjóðlegum fjármálamörkuðum versna að ráði, að sögn Davíðs.

„Mikil óvissa ríkir um framvindu kjaramála. Vinnumarkaður er enn mjög spenntur og verðbólga er meiri en spáð var í júlí sem fyrr segir. Hvort tveggja ýtir undir að laun hækki meira en samrýmist stöðugu verðlagi. Þessir og aðrir óvissuþættir auka líkur á að verðbólga verði meiri en grunnspáin sýnir. Meiri hækkun launa og lækkun gengis en felst í henni myndi leiða til meiri samdráttar eftirspurnar og atvinnu en ella, þótt síðar yrði.

Þegar líður á spátímabilið gætu þættir sem unnið hafa gegn hjöðnun verðbólgu breyst. Skilyrði hafa versnað á erlendum fjármálamörkuðum og hærri vextir fasteignaveðlána gætu kælt fasteignamarkaðinn eins og þegar hefur gerst víða erlendis. Gert er ráð fyrir slíkri þróun í grunnspánni, en samdrátturinn gæti orðið meiri en þar er byggt á þótt merki þess séu enn ekki fram komin," sagði Davíð.

Langtímahagsmunum þjóðarinnar best borgið með því að verðbólgumarkmið náist

Þrálát verðbólga og mikill viðskiptahalli sýna að eftirspurn þarf að dragast saman eigi jafnvægi að nást í þjóðarbúskapnum, samkvæmt stefnuyfirlýsingu bankastjórnar Seðlabanka Íslands.

Frestun á slíkri aðlögun mildar ekki áhrifin til lengdar. Ákvörðun um hækkun stýrivaxta nú endurspeglar þá afstöðu bankastjórnar að langtímahagsmunum þjóðarinnar sé best borgið með því að verðbólgumarkmiðinu verði náð innan viðunandi tíma. Að öðru óbreyttu næst það ekki nema með því aukna aðhaldi sem hækkun vaxta nú felur í sér.

Án þess stranga peningalega aðhalds sem veitt hefur verið væri verðbólga mun meiri en þó er, með alkunnum afleiðingum fyrir afkomu og efnahag fyrirtækja og heimila. Því verður að brjótast út úr þeim verðbólguviðjum sem þjóðarbúskapurinn hefur verið flæktur í. Það gerist ekki átakalaust. Slakara aðhald nú myndi aðeins leiða til þrálátari verðbólgu og sársaukafyllri aðlögunar síðar. Öllum má vera ljóst að því minna sem aðhaldið er á öðrum sviðum efnahagslífsins, í fjármálum ríkis og sveitarfélaga, á vinnumarkaði og í útlánum fjármálafyrirtækja, því meira er lagt á stefnuna í peningamálum," að því er segir í stefnuyfirlýsingu bankastjórnar Seðlabanka Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK