27,1 milljarðs tap á rekstri FL Group á þriðja ársfjórðungi

Tap á rekstri FL Group nam 27,1 milljarði króna á þriðja ársfjórðungi. Segir félagið að þetta endurspegli þá leið félagsins að færa allar skráðar eignir á markaðsvirði. Það sem af er árinu nemur tap á rekstri félagsins 4 milljörðum króna en á sama tímabili í fyrra var 11 milljarða króna hagnaður.

Hannes Smárason, forstjóri FL Group, segir í tilkynningu, að órói hafi verið á erlendum fjármálamörkuðum á fjórðungnum sem hafi endurspeglast í tímabundnum sveiflum á eignasafni félagsins. Hinsvegar sé rekstur helstu eigna félagsins góður og þar séu mikil tækifæri til verðmætaaukningar.

Fram kemur í tilkynningunni, að tekjur af verðbréfa og afleiðuviðskiptum hafi verið neikvæðar um 23,7 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi. Þar af hafi afkoma af sölu hlutabréfa verið neikvæð um 3,1 milljarð króna, breyting á markaðsvirði eignasafnsins neikvæð um 1,6 milljarða króna og breyting á markaðsvirði afleiða neikvæð um 18,9 milljarða króna.

Fjármagnstekjur á fjórðungnum voru 973 milljónir króna og fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2944 milljónir. Fjármagnskostnaður hækkaði úr 3,3 milljörðum króna fyrir fyrstu níu mánuði 2006 í 11,3 milljarða króna fyrir fyrstu níu mánuði þessa árs. Segir félagið að hærri fjármagnskostnaður skýrist af miklum vexti í eignasafni félagsins á tímabilinu.

Tilkynning FL Group

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK