Bankamenn játa sekt í Enron-máli

Þrír breskir bankamenn, sem voru ákærðir  fyrir hlut sinn í Enron málinu, hafa játað sekt sína en áður höfðu þeir lýst yfir sakleysi. Eru þremenningarnir ákærðir fyrir að hafa tekið þátt í að aðstoða Andrew Fastow, fyrrum aðalfjármálastjóra Enron, við fjársvik.

Réttarhöld yfir David Bermingham, Giles Darby og Gary Mulgrew áttu að hefjast í janúar en þeir hafa játað að hafa tekið þátt fjármálahneykslinu árið 2000 með því að svíkja fé út úr fyrrum vinnuveitanda sínum með því að vera í vitorði með Fastow.

 NatWest hafði fjárfest í dótturfélagi Enron, félagi sem var stýrt af Fastow, sem talinn er einn af hugmyndasmiðunum á bak við svindlið sem skók bandaríska orkufyrirtækið Enron á sínum tíma. Í ársbyrjun 2000 færði NatWest virði eignar sinnar í dótturfélaginu niður og var hann metinn verðlaus þrátt fyrir að þremenningarnir vissu að hann væri það ekki. Fyrirtæki undir stjórn Michael Kopper, helsta aðstoðarmanns Fastow, keypti síðan hlut NatWest í dótturfélaginu á eina milljón dala. Greiddu bankamennirnir Kopper 250 þúsund fyrir viðskiptin. Fastow falasaði síðan gögn Enron þannig að orkufyrirtækið myndi greiða NatWest 20 milljónir dala fyrir hlutinn.  En 20 milljónirnar runnu hins vegar beint í vasa bankamannanna þriggja, Fastows og fleiri sem komu að fjársvikunum. Fengu bankamennirnir 7,3 milljónir dala í sinn hlut á meðan Fastow, Kopper fleiri félagar þeirra fengu um 12,3 milljónir í sinn hlut, samkvæmt játningu þremenninganna. 

 Þremenningarnir játuðu sekt í einum lið ákærunnar sem var í sjö liðum og samþykktu einnig að greiða NatWest bankanum, en þeir eru allir fyrrum yfirmenn bankans, fjárhæðina sem þeir sviku út, alls 7,3 milljónir dala.  Eins verður þeim gert að greiða frekari skaðabætur í Bretlandi en bankinn höfðaði einkamál gegn þeim er málið komst upp á sínum tíma.

Allir eiga þeir yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsi og sekt upp á 250 þúsund dali en dómur verður kveðinn upp yfir þeim þann 22. febrúar næstkomandi.  Lögfræðingar þeirra vinna nú að því að þeir fái að afplána hluta refsingarinnar í Bretlandi. 

Gary Mulgrew, Giles Darby og David Bermingham
Gary Mulgrew, Giles Darby og David Bermingham Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK