Breytingar hjá Kaupþingi losa um lausafé upp á 130 milljarða króna

Kaupþing
Kaupþing

Kaupþing Singer & Friedlander hyggst hætta starfsemi á sviði eignafjármögnunar og hrávöruviðskiptafjármögnunar auk þess sem gerðar hafa verið skipulagsbreytingar innan fyrirtækjasviðsins í Bretlandi. Þessar breytingar koma til með að hafa jákvæð áhrif á kostnaðarhlið bankans og losa um lausafé sem nemur rúmlega 1 milljarði punda (130 milljörðum króna) á árinu 2008.

Það fjármagn sem losnar verður nýtt til að efla kjarnastarfsemina í Bretlandi enn frekar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kaupþingi til Kauphallar OMX á Íslandi. 

Þessar breytingar eru síðasti liðurinn í endurskipulagningu rekstrarins í Bretlandi í kjölfar kaupa Kaupþings á Singer & Friedlander árið 2005.  

Í kjölfar þessarar endurskipulagningar mun Kaupthing Singer & Friedlander eingöngu leggja áherslu á að veita heildstæða fjármálaþjónustu til lítilla og meðalstórra fyrirtækja og fjársterkra einstaklinga í gegnum fimm kjarnasvið bankans: fyrirtækjasvið, fyrirtækjaráðgjöf, fjárstýringu, markaðsviðskipti og eignastýringu og einkabankaþjónustu, samkvæmt tilkynningu.  

Eftir að þessar breytingar verða um garð gengnar er starfsemi Kaupþings-samstæðunnar á sviði eignafjármögnunar óveruleg, að því er segir í tilkynningu.  

Þar að auki hefur Kaupthing Singer & Friedlander flutt þá deild sem fæst við sérhæfð lánaviðskipti frá fyrirtækjasviði yfir í þá deild fyrirtækjaráðgjafar sem fæst við skuldsettar yfirtökur.

Kaupthing Singer & Friedlander mun einnig loka þeim deildum sem sinna fasteigna- og fyrirtækjalánum í Leeds og Manchester og flytja þær til Birmingham og Lundúna.  

Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kaupthing Singer & Friedlander, segir í tilkynningu: „Þessar breytingar marka lokaskrefin í endurskipulagningunni sem hófst í kjölfar yfirtöku okkar á Singer & Friedlander. Við ætlum nú að beina kröftum okkar og fjármagni að kjarnastarfseminni í Bretlandi. Ég vil þakka stjórnendum og starfsfólki þeirra sviða sem við erum nú að segja skilið við fyrir þátt þeirra í velgengninni sem við höfum notið í starfseminni í Bretlandi."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK