Vandi hve illa gengur að laða að erlenda fjárfesta

Sigurður Einarsson.
Sigurður Einarsson. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Eitt helsta vandamál íslensks fjármálamarkaðar er að ekki hefur tekist að laða að erlenda langtímafjárfesta. Þetta kom fram í erindi Sigurðar Einarssonar, stjórnarformanns Kaupþings, á málstofu BSRB um lífeyrismál í dag.

„Ein augljós hindrun í því er íslenska krónan. Þótt margir erlendir lífeyrissjóðir vilji gjarnan fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum og geti vel sætt sig við þá áhættu sem slík fyrirtæki bæta við vel dreift eignasafn, vilja þeir síður taka á sig þá viðbótaráhættu sem felst í gjaldmiðlinum.

Önnur ástæða þessa er - já krónan, eða öllu heldur hvernig hún hefur verið markaðssett af Seðlabankanum. Seðlabankinn hefur hvatt til vaxtarmunaviðskipta með háum skammtímavöxtum. Það þarf engan doktor í hagfræði til að sjá að hvorki núverandi viðskiptahalli né vaxtastig gengur til langframa.

Fyrr en síðar munu vextir lækka og gengi krónunnar leita jafnvægis. Þeir sem fjárfesta í krónubréfum vita því mæta vel að brátt mun verðgildi þeirra rýrna. Líkast til telja þeir sjálfum sér trú um að þegar það gerist geti þeir selt á undan öllum öðrum. Það veldur síðan því, að þegar krónan leitar jafnvægis verður að öllum líkindum mikið yfirskot. Það eru með öðrum orðum ekki langtímafjárfestar sem fjárfesta í krónubréfum, en ástæða er til að ætla að töluvert sé um spennufíkla. Það getur ekki talist heilbrigt," segir Sigurður.

Segir Seðlabankann sópa verðbólgunni undir teppið

Að sögn Sigurðar er í umræðunni um efnahagsmál oft talað um að íslenska krónan sé hávaxtamynt, því gerist ekki þörf á að ræða hvers vegna vextir á Íslandi séu svona háir, svarið liggur í augum uppi, krónan er jú hávaxtamynt.

„En er málið virkilega svona einfalt? Eða hefur krónan - einfaldlega verið markaðssett sem hávaxtamynt? Ég held að það sé nokkuð til í því. Undanfarin ár hefur Seðlabankinn hækkað vexti og þannig styrkt gengi krónunnar sem aftur hefur valdið lækkun á verði innfluttrar vöru og þannig breitt yfir innlenda verðbólgu að nokkru leyti.

Gallinn við þessa aðferð er hins vegar sá að gengi krónunnar, svo lengi sem það er stöðugt, hefur engin áhrif á vísitölu neysluverðs. Seðlabankinn hefur því þurft að styrkja gengi krónunnar sífellt meira til að sópa verðbólgunni undir teppið. Þessi stefna getur ekki á nokkurn hátt talist sjálfbær enda er svo komið að hátt gengi gjaldmiðilsins ásamt eftirlátssamri ríkisfjármálastefnu hefur leitt til hæsta viðskiptahalla sem þekkst hefur á meðal ríkja OECD.

En þrátt fyrir það er verðbólgan utan vikmarka Seðlabankans, og muna vart elstu menn hvenær hún var síðast innan þeirra.

Í hagkerfi sem farið er að fjármagna sig í æ ríkara mæli í erlendri mynt eykur gengisstyrking og einkum í sér í lagi væntingar um gengisstyrkingu á þenslu með því að auka spurn eftir innfluttri vöru og lækka fjármagnskostnað erlendra lána. Það er spurning hvort ekki sé rétt að Seðlabankinn bakki út úr þessu öngstræti, ýti verðbólgumarkmiði tímabundið að minnsta kosti til hliðar og þjóðin stöðvi erlenda skuldasöfnun og búi atvinnulífinu samkeppnishæf rekstrarskilyrði með heilbrigðara vaxtastigi og raungengi?"

Danir hnýta ekki í lífeyrissjóðina

Sigurður gerði útrás íslenskra fyrirtækja að umræðuefni og aðkomu lífeyrissjóðanna að henni. Sagðist hann telja að ekkert íslenskt fyrirtæki farið í útrás, án þess að lífeyrissjóðir hafi verið þar meðal helstu fjárfesta.

„Eðli síns vegna eru lífeyrissjóðir mjög æskilegir fjárfestar fyrir fyrirtæki, já ég segi æskilegir fjárfestar jafnvel þótt öllum sé heimilt að kaupa og selja fyrirtæki sem skráð er á markaði. Fjárfestingarrammi lífeyrissjóða er mun lengri en flestra annarra fjárfesta þannig að eign þeirra skapar ákjósanlega kjölfestu í hluthafahópi og gerir fyrirtækjum kleift að horfa lengra fram á veg í ákvörðunum sínum," segir Sigurður.

Segir hann hlutverk lífeyrissjóða felast í því að byggja upp sparnað fólks til að standa straum af útgjöldum þess þegar að starfslokum kemur. „Það er mikil eign sem heimilin í landinu hafa safnað í digra lífeyrissjóði og í nýlegri skýrslu kom einmitt fram að íslensku sjóðirnir væru stærstir í OECD, já og ekki einu sinni Danir sjá ástæðu til að hnýta í lífeyrissjóði okkar.

Þetta snertir útrásarfyrirtækin á tvo vegu. Annars vegar gerir þetta öryggi um ellilífeyri fólki kleift að taka meiri áhættu en ella, stofna fyrirtæki og hrinda draumum í framkvæmd. Þetta aukna frumkvæði eykur svo hag okkar allra og ein víðtækasta birtingarmynd þess er þessi svokallaða útrás.

Önnur áhrif og jafnvel mikilvægari er að eignarhlutur lífeyrissjóða í fyrirtækjum veitir almenningi hlutdeild í velgengni þeirra. Það skýrir vafalítið hvers vegna þessi fyrirtæki eru almennt mjög vel liðin á meðal almennings sem síðan veitir þeim aðgang að hæfu starfsfólki og starfsfrið frá neikvæðum straumum og jafnvel lýðskrumi," segir Sigurður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK