Tap vegna AMR, Commerzbank og Finnair nam 38 milljörðum

Jón Ásgeir Jóhannesson á aðalfundi FL Group í dag.
Jón Ásgeir Jóhannesson á aðalfundi FL Group í dag. mbl.is/Golli

Tap FL Group vegna fjárfestinga í skráðu erlendu félögunum American Airlines, Commerzbank og Finnair nam samtals um 38 milljörðum króna, en tap FL Group á síðasta ári nam tæplega 70 milljörðum króna og er það stærsta tap íslensks félags til þessa.

Kom þetta fram í svari Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, stjórnarformanns FL Group við spurningu Vilhjálms Bjarnasonar, framkvæmdastjóra Samtaka fjárfesta, á aðalfundi félagsins í dag.

Lagði Vilhjálmur fram átta spurningar í nokkrum liðum og í svari Jóns Ásgeirs kom það m.a. fram að greiðslur FL Group til félags í eigu Hannesar Smárasonar hefðu numið 94 milljónum króna, en um greiðslur fyrir flugþjónustu hefði verið að ræða þar sem félag Hannesar hefði selt FL Group afnot af einkaþotu í sinni eigu.

Þá kom fram að skuld stjórnarmannsins Þorsteins M. Jónssonar og félags hans, Materia Invest, við FL Group hefði numið um 73 milljónum króna um síðustu áramót.

Annars áskildi stjórn félagsins sér frest til að svara spurningum Vilhjálms skriflega og er þeirra að vænta innan tveggja vikna. Vilhjálmur spurði einnig hvort rétt væri að Sigurður Helgason hefði fengið 3000 dali, jafnvirði rúmlega 200 þúsundum króna á dag frá FL Group í dagpeninga þegar hann fór á stjórnarfundi hjá Finnair og hve há fjárhæð hefði verið greidd Jóni Þór Sigurðssyni eða fyrirtæki á hans vegum og fyrir hvaða þjónustu. Þá spurði Vilhjálmur hver hefði verið kostnaður vegna flugferða starfsmanna og stjórnarmanna FL Group á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK