Íslensku bankarnir að koma inn úr kuldanum

Kreppan sem hefur herjað á íslensku bankana að undanförnu virðist vera á undanhaldi. En þrátt fyrir það er enn of snemmt fyrir hluthafa í bönkunum þremur, Glitni, Kaupþingi og Landsbankanum, að draga andann léttar. Svona hefst grein sem birtist á Dow Jones fréttaveitunni í dag.

Þar kemur fram að hlutabréf bankanna hafi hækkað að undanförnu á sama tíma og horfur á því að þeir fari á hliðina hafa minnkað. Kemur fram í greininni að á síðustu tveimur vikum hafi hlutabréf Glitnis og Landsbankans hækkað um 10% eftir að hafa lækkað um 40% og 33% frá síðasta hausti.

En þrátt fyrir það eru uppi ýmsar efasemdir um stöðu bankanna og efnahagsreikning þeirra sem litast af erfiðleikum sem steðja að í íslensku efnahagslífi. Matsfyrirtækið Fitch Ratings hefur sett lánshæfiseinkunnir  Glitnis, Kaupþings og Landsbanka til neikvæðrar athugunar. 

Í rökstuðningi Fitch Ratings segir að íslenski fjármálageirinn hafi orðið fyrir áföllum að undanförnu sem gerir það að verkum að auknar líkur eru nú á erfiðleikum varðandi fjármögnum bankanna enda hafi aðgengi þeirra að fjármagni versnað umtalsvert á skömmum tíma vegna aðstæðna á alþjóðlegum mörkuðum. Þá telur Fitch það einnig til bókar að mikil veiking krónunnar að undanförnu og aukin hætta á harði lendingu íslenska hagkerfisins geti valdið bönkunum búsifjum á komandi vikum og mánuðum.

Starfsemi bankanna í grundvallaratriðum í góðu lagi

Segir í greininni að það valdi fjárfestum áhyggjum hvernig verðbréfasafn bankanna er uppbyggt. Þar kemur fram að Kaupþing sé með 1,3 milljarða evra í skráðum og óskráðum hlutum í efnahagsreikningi sínum árið 2007. Það jafngildi 41% af Tier 1 eiginfjárhlutfalli bankans eða 3% af eignum hans. Fjármálaeftirlitið hafi bent á það í janúar að markaðsáhættan væri umtalsverð. Hins vegar sé hlutfallið lægra hjá Glitni og Landsbankanum.

En þegar allt er tekið saman sé starfsemi bankanna þriggja í grundvallaratriðum í góðu lagi. Þeir þurfi lítið sem ekkert að fjármagna sig á næstunni og þeir hafi aukið innlán umtalsvert. Eins geri Fjármálaeftirlitið reglulega álagspróf á bönkunum og þrátt fyrir möguleg utanaðkomandi áhrif, til að mynda lækkun á gengi krónunnar um 20%, þá hafi það lítil sem engin áhrif á eiginfjárhlutföll bankanna sem eru mun hærri heldur en reglur kveða á um.

Of mikið gert úr áhættunni

Dow Jones telur að allt of mikið sé gert úr þeirri áhættu sem fylgir skuldabréfum íslensku bankanna enda sé skuldatryggingarálag bankanna á við það sem gengur og gerist hjá bönkum í  Kazakstan.

Góðu fréttirnar fyrir Íslendinga eru þær að það voru ekki allir sem keyptu söguna um þá miklu áhættu sem fylgdu íslensku bönkunum. Kaupþing gat til að mynda gefið út skuldabréf fyrir 1,1 milljarð evra í síðasta mánuði og var það á kjörum sem eru töluvert lægri en núverandi skuldatryggingaálag bankans á markaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK