Verð á olíu yfir 126 dali

Verð á olíu hefur hækkað um tæpa 10 dali í …
Verð á olíu hefur hækkað um tæpa 10 dali í vikunni Reuters

Verð á hráolíu fór í fyrsta skipti í sögunni yfir 126 dali tunnan á markaði í New York í dag. Hefur verð á tunnu hækkað um tæplega tíu dali í vikunni. Velta fjárfestar því nú fyrir sér hvort deilur Bandaríkjamanna og Venesúela geti haft áhrif til hækkunar vegna minni olíuútflutnings frá Venesúela.

Bandaríska dagblaðið Wall Street Journal birtir í dag fréttaskýringu þar sem ýjað er að því hvort forseti Venesúela, Hugo Chavez sé að auka tengslin við kólumbísku skæruliðahreyfinguna FARC með það í huga að koma stjórn Kólumbíu frá völdum. Ef rétt reynist er það talið auka líkur á að Bandaríkin muni setja viðskiptabann við Venesúela en landið er einn helsti framleiðandi olíu fyrir Bandaríkjamarkað. 

„Ef við setjum viðskiptabann þá er ég sannfærður um að Chavez muni hóta að skrúfa fyrir innflutning á olíu til okkar," segir Phil Flynn, sérfræðingur hjá Alaron Trading, í samtali við AP fréttastofuna. „Það myndi hafa gríðarleg áhrif á olíuverð."

Verð á hráolíu til afhendingar í júní fór í 126,20 dali tunnan á  hrávörumarkaði í New York í dag. Í Lundúnum fór tunnan af Brent Norðursjávarolíu til afhendingar í júní í 124,63 dali.

En það voru ekki einungis vangaveltur um Venesúela sem höfðu áhrif til hækkunar í dag því Bandaríkjadalur lækkaði gagnvart evru. Eins er talið ólíklegt að Seðlabanki Evrópu lækki stýrivexti á næstunni til þess að draga úr hækkun evru gagnvart dollar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK