Ótvíræð merki um að eftirspurn er að dragast saman

Davíð Oddsson
Davíð Oddsson Ómar Óskarsson

Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, segir að ótvíræð merki séu um að það sé farið að draga úr vexti eftirspurnar. Hins vegar sjást enn ekki skýr merki um samdrátt á vinnumarkaði. Þetta kom fram í máli Davíðs er hann skýrði forsendur fyrir ákvörðun bankastjórnar að halda stýrivöxtum óbreyttum í 15,50%.

Í kjölfar verulegrar lækkunar á gengi krónunnar á fyrstu þremur mánuðum ársins voru stýrivextir hækkaðir í tveimur áföngum um 1,75 prósentur undir lok mars og snemma í apríl.

Sem vænta mátti leiddi gengislækkunin til þess að verðbólga jókst í apríl og hún gæti orðið meiri á næstu mánuðum en Seðlabankinn spáði í apríl sl. Aukinn innlendur kostnaður vegna gengislækkunar, erlendra verðhækkana og hækkunar launa mun ráða miklu um þessa fram­vindu.

„Í kjölfarið verða áhrif minnkandi framleiðsluspennu og eftirspurnar yfirsterkari og þá dregur úr þrýstingi á verðlag. Sam­kvæmt spá Seðlabankans sem birt var í Peningamálum í apríl sl. dregst innlend eftirspurn verulega saman á næstu árum og hús­næðismarkaðurinn kólnar. Merki um hið síðar nefnda hafa skýrst frá því í byrjun apríl og nú virðist einnig ótvírætt að tekið sé að draga úr vexti eftirspurnar. Hins vegar sjást enn ekki skýr merki um samdrátt á vinnumarkaði.”

Segir Davíð það afar brýnt að aukin verðbólga til skamms tíma leiði ekki til víxlbreytinga launa, verðlags og gengis.

Gjaldmiðlasamningar leysa ekki allan vanda

„Háum stýrivöxtum og öðrum aðgerðum Seðlabankans og annarra stjórnvalda, þ.m.t. aukin útgáfa ríkisbréfa, er ætlað að stuðla að stöðugleika á gjald­eyrismarkaði sem er mikilvæg forsenda þess að böndum verði komið á verðbólgu og verðbólguvæntingar. Gjaldmiðlaskipta­samningar Seðlabanka Íslands við seðlabanka Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar höfðu jákvæð áhrif á fjármálamarkaði en þeir leysa ekki allan vanda sem við er að fást.”

Ólíklegt að vextir lækki í júlí

Segir formaður bankastjórnar seðlabankans að ekki verði unnt að slaka á peningalegu aðhaldi fyrr en sýnt verður að verðbólga sé á undanhaldi enda fátt mikilvægara fyrir efnahag heimila og fyrirtækja en að sú þróun hefjist og verði hnökralítil. Vaxtaákvarðanir bankastjórnar Seðlabankans taka mið af því, sagði Davíð að lokum.

Að sögn Davíðs væri óráð að lækka vexti á næsta vaxtaákvörðunarfundi bankans í júlí og á næstunni en vonir standa til þess að vextir fari lækkandi samhliða undanhaldi verðbólgunnar. 

En þrátt fyrir merki um að eftirspurn sé að dragast saman þá sé ýmislegt annað sem steðjar að. Verðbólguáhyggjur séu ekki bara á Íslandi heldur víðar í veröldinni. Til að mynda sé verð á olíu komið yfir 135 dali tunnan og í gær gaf Seðlabanki Bandaríkjanna til kynna að stýrivextir verði ekki lækkaðir þar á næstunni, að vaxtalækkunarferlinu sé lokið þar að sinni. 

Breytt viðhorf til íslensku bankanna

Davíð segir að nú sjáist merki um að sú vantrú sem ríkt hefur í garð íslensku bankanna hafi sem betur fer gjörbreyst líkt og sjáist á lækkandi skuldatryggingaálagi bankanna þriggja. Það muni vonandi leiða til þess að þeir fái aðgang að lánamörkuðum þó svo það sé á verri kjörum en áður í upphafi. Um leið og þeir fái tækifæri til að fjármagna sig muni starfsemi þeirra verða á ný með eðlilegum hætti. 

Óbreytt spá bankans um raunlækkun á fasteignamarkaði

Aðspurður segir Davíð að ekki sé ástæða til þess að hvika frá spá bankans um verulega lækkun á verði fasteigna. Í spá bankans frá því í apríl kom fram að kólnun á húsnæðismarkaði hafi þegar komið fram í því að verðhækkun íbúðarhúsnæðis hefur u.þ.b. stöðvast, þrátt fyrir umtalsverða hækkun byggingarkostnaðar, og velta hefur minnkað hratt.

Horfur séu á að lækkun ráðstöfunartekna, þrengingar á lánamörkuðum og aukið framboð íbúðarhúsnæðis leiði til umtalsverðrar verðlækkunar. Gert er ráð fyrir að húsnæðisverð lækki um u.þ.b. 30% að raunvirði til ársins 2010.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK