Markaðsvirði Inspired á hraðri niðurleið

Inspired rekur spilakassa
Inspired rekur spilakassa mbl.is/Sverrir

Verð á hlutum í breska spilakassafyrirtækinu Inspired Gaming Group, sem FL Group á 18,9% hlut í, er nú tæplega 70 pens á hlut en í september á síðasta ári greindi FL Group frá því að félagið hefði gert yfirtökutilboð í spilakassafyrirtækið á 385 pens á hlut. Markaðsvirði félagsins er því tæplega sex sinnum minna í dag en það var í september.

Í frétt sem birtist á vef Financial Times á sunnudag kemur fram að markaðsvirði félagsins sé nú um 48,8 milljónir punda, eða tæpir sjö milljarðar króna.

Í svari stjórnar FL Group til Vilhjálms Bjarnasonar, formanns Félags fjárfesta, á aðalfundi félagsins í mars um hve mikið  FL Group hafi greitt í kostnað vegna athugunar á kaupum á Inspired Gaming Group segir: „Beinn útlagður kostnaður við fyrirhugaða yfirtöku á Inspired Gaming Group á síðasta ári var 791.736.000 kr eða um 1,6% af 50 milljarða fyrirhuguðu kaupverði hlutarins."

 Í tilkynningu FL Group í desember í fyrra er greint var frá því að félagið hefði hætt við að gera yfirtökutilboð í Inspired Gaming Group að svo stöddu.  Hinsvegar muni FL Group áfram vinna með stjórn Inspired og styðja við framtíðarvöxt þess en stjórnendur FL Group telja mikil tækifæri felast í rekstri félagsins.

Inspired rekur samkvæmt frétt FT 82.000 spilakassa í breskum krám, spilavítum og samkomuhúsum. Á vef Kauphallarinnar í Lundúnum kemur fram að verð hlutabréfa í Inspired hafi hæst farið í 378,75 pens á undanförnum tólf mánuðum en lægst í 66 pens.

Júlíus Þorfinnsson, forstöðumaður samskiptasviðs FL Group, vildi ekki tjá sig um það í samtali við mbl.is hvort félagið hygðist eiga hlutinn í Inspired áfram. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK