Verð á olíu niður fyrir 130 dali

AP

Verð á hráolíu til afhendingar í júlí hefur lækkað í rafrænum viðskiptum á NYMEX markaðnum í dag og er 129,05 dalir tunnan. Skýrist lækkunin af tiltrú manna á að skýrsla sem kynnt verður í dag um birgðastöðu í Bandaríkjunum sýni að birgðir hafi aukist í síðustu viku. Eins skiptir máli að talið er að Bandaríkjamenn eigi eftir að draga úr eldsneytisnotkun á næstunni og styrking á gengi Bandaríkjadals.

Í Lundúnum lækkaði einnig verð á Brent Norðursjávarolíu til afhendingar í júlí. Er það nú 128,91 dalur tunnan.

Í Morgunkorni Glitnis í dag kemur fram að hráolíuverð hefur hækkað um 40% það sem af er ári og deila menn um hvort raunveruleg eftirspurn eða spákaupmennska vegi þar meira.

Ýmsir bankamenn benda á að framvirkir samningar séu þrátt fyrir allt seldir áður en að afhendingu kemur, til raunverulegra notenda sem fá olíuna afhenta. Spákaupmenn séu því seljendur olíu til tafarlausrar afhendingar og stuðli þess vegna ekki að þeirri hömstrun sem sé forsenda fyrir verðbólu.

Framleiðsla nokkurra stórra olíuframleiðenda hefur dregist saman á meðan eftirspurn, einkum í Indlandi og Kína, hefur aukist. Nú hafa hins vegar Sameinuðu arabísku furstadæmin, þriðji stærsti olíuframleiðandinn innan OPEC, tilkynnt að þau séu reiðubúin að auka framleiðslu ef markaðir krefjist þess.

Að auki hefur Indónesía, sem hefur þurft að auka innflutning á olíu vegna hnignandi olíulinda heimafyrir og er á leið út úr OPEC vegna þessa, boðið út leit á 25 olíu- og gassvæðum. Hins vegar hefur kostnaður við olíuvinnslu hækkað nánast til jafns við hráolíuverð, að því er segir í Morgunkorni Glitnis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK