Kaupþing þarf að skipta út gjaldeyri vegna nýrra reglna

AP

Miðað við gjaldeyrisjöfnuð viðskiptabankanna þriggja í lok fyrsta ársfjórðungs má áætla að Kaupþing þurfi að selja nærri 70 milljarða króna gjaldeyri og kaupa krónur í kjölfar nýrra reglna Seðlabanka Íslands um gjaldeyrisjöfnuð fjármálafyrirtækja sem taka gildi í byrjun júlí. Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis.

Nýju reglurnar kveða á um að misvægi erlendra eigna og skulda má mest nema 10% af eigin fé hverju sinni í stað 30% áður. Eftir sem áður munu fjármálafyrirtæki sem reka umsvifamikla starfsemi erlendis þó hafa heimild til að hafa umfram gjaldeyrisjöfnuð til að verja sig gegn neikvæðum gengisáhrifum á eiginfjárhlutföll. Tilgangur þessara breytinga er að draga úr áhættu og stuðla að virkari verðmyndun gjaldeyris á millibankamarkaði.

„Við teljum að miðað við gjaldeyrisjöfnuð bankanna í lok fyrsta ársfjórðungs hafi Landsbanki og Glitnir haldið innan 10% gjaldeyrisstöðu af eigin fé en að staða Kaupþings hafi verið stærri en nýju reglurnar heimila. Miðað við stöðu Kaupþings í lok fyrsta ársfjórðungs má áætla að Kaupþing þurfi að selja nærri 70 ma.kr. af gjaldeyri og kaupa krónur.

Þessir útreikningar miðast við einfaldar forsendur og taka til dæmis ekki tillit til skattalegrar meðferðar á hagnaði af gjaldeyrishagnaði. Einnig er óvíst hvernig gjaldeyrisjöfnuður bankanna hefur þróast í maí en hugsast getur að einhver bankanna hafi lokað hluta af gjaldeyrisstöðu sinni. Seðlabankinn gefur út yfirlit yfir gjaldeyrisstöðu móðurfélaga bankanna kl. 16 í dag en það gefur innsýn í þróun gjaldeyrisjafnaðar bankanna í maí.

Það hefði verið heppilegra að Seðlabankinn hefði gefið út áðurgreint yfirlit samhliða tilkynningunni um breytingar á gjaldeyrisjöfnuði til að koma í veg fyrir óþarfa óvissu," að því er segir í Morgunkorni Glitnis.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK