Fannie og Freddy lækka um 90%

Höfuðstöðvar Fannie Mae
Höfuðstöðvar Fannie Mae JASON REED

Hlutabréf Fannie Mae og Freddie Mac lækkuðu gríðarlega í verði á Wall Street í dag. Lækkuðu hlutabréf Fannie Mae um 90,06% og Freddie Mac um 82,75%. Skýrist lækkunin af ákvörðun bandarísku alríkisstjórnarinnar um helgina að nánast þjóðnýta fasteignalánasjóðina. Sjóðirnir hafa tapað um tólf milljörðum Bandaríkjadala á einu ári en sumir vilja halda því fram að eigið fé þeirra sé jafnvel þegar orðið neikvætt og þeir þar með í raun gjaldþrota.

Hluthafar tapa öllu eða nánast öllu

Fjallað er um ákvörðun bandarískra stjórnvalda í Hálf fimm fréttum Kaupþings og Vegvísi Landsbankans í dag. Kemur þar fram að markmiðið með þjóðnýtingunni sé að tryggja áframhaldandi rekstur sjóðanna, sem eru stærstu fasteignalánveitendur í Bandaríkjunum,  en þeir eiga eða tryggja hátt í helming fasteignalána í Bandaríkjunum og myndi fall þeirra valda stórfelldum skaða á núverandi fyrirkomulagi húsnæðislánamarkaðar þarlendis.

Til að viðhalda fjármálastöðugleika hafi því verið gripið til þess ráðs að taka yfir stjórn sjóðanna sem er í raun síðasta skrefið áður en að eiginlegri þjóðnýtingu kemur. Áfram verður hægt að eiga viðskipti með hlutabréf sjóðanna að nafninu til.

 „Bandaríska ríkið er þar með orðið ábyrgt fyrir skuldbindingum sjóðanna ekki ósvipað ábyrgð íslenska ríkisins á skuldabréfum Íbúðalánasjóðs hérlendis. Gera má ráð fyrir að hluthafar sjóðanna tapi stórum eða öllum hluta eigna sinna líkt og raunin er venjulega þegar þjóðnýting á sér stað og hafa m.a. allar arðgreiðslur verið frystar.

Enn er óvíst hvort einhver lagaleg eftirmál verði af þeirra hendi líkt og raunin gæti orðið í tilviki hluthafa Roskilde Bank og Northern Rock sem voru þjóðnýttir fyrr á árinu. Hins vegar eru allar líkur á að skuldunautar sjóðanna fái sína fjármuni að fullu greidda nú þegar alríkið hefur ábyrgst skuldir sjóðsins. Gera má ráð fyrir að margur skuldunautur sjóðanna hafi andað léttar í kjölfar fréttanna en margir ólíkir alþjóðlegir aðilar á borð við fjárfestingarsjóði, banka og jafnvel seðlabanka eiga hlut af skuldum þeirra," að því er segir í Hálf fimm fréttum Kaupþings.

Þjóðnýting skammgóður vermir

Þjóðnýtingin gæti þó verið skammgóður vermir fyrir verðbréfamarkaði en hlutabréf, sérstaklega banka, hækkuðu talsvert í viðskiptum dagsins. Alþjóðasamtök afleiðumiðlara (International Swaps and Derivatives Association) bentu á að þjóðnýting væri „gjaldþrot“ samkvæmt skuldatryggingasamningum (e. CDS contracts). Samanlagt virði þeirra skuldatryggingasamninga sem gætu verið virkjaðir í framhaldi af þessum gjaldþrotum er nærri 1.500 milljörðum Bandaríkjadala, jafnvirði tæpra 130.000 milljarða íslenskra króna. Það er u.þ.b. 100-föld árleg landsframleiðsla íslenska hagkerfisins til glöggvunar.

Óttast er að tryggjendur slíkra samninga muni eiga erfitt með að snara fram allri þeirri upphæð í fljótheitum, sér í lagi vegna almenns skorts á lánsfé. Fari allt á versta veg geti það leitt til keðjuverkandi gjaldþrota tryggingaraðila skuldatryggingasamninga með tilheyrandi falli hlutabréfa í kjölfarið, að því er segir í Hálf fimm fréttum.

Fannie Mae (Federal National Mortgage Association) hóf feril sinn skömmu eftir kreppuna miklu sem ríkisrekin stofnun og var ætlað að auka framboð húsnæðislána á hagstæðum kjörum til fjölskyldna og einstaklinga í Bandaríkjunum. Fyrirtækið var einkavætt árið 1968. Árið 1970 setti ríkisstjórn Richards Nixon á fót Federal Home Loan Mortgage Corp. (Freddie Mac) til að stuðla að aukinni samkeppni á húsnæðislánamarkaði. Sjóðurinn var einnig skráður á hlutabréfamarkað.
 
Óttast áhrifin til lengri tíma litið

Frá því fyrr á þessu ári hafa áhyggjur magnast af greiðsluvandræðum beggja félaga, sem liggja með umtalsverðan hluta ótryggra veðlána í Bandaríkjunum. Um miðjan júlímánuð var tilkynnt að Seðlabanki Bandaríkjanna hygðist koma húsnæðislánasjóðunum til aðstoðar vegna vaxandi vanskila á húsnæðismarkaði og slæmrar lausafjárstöðu fyrirtækjanna. Þær aðgerðir báru ekki tilætlaðan árangur. Ótti fjárfesta við gjaldþrot félaganna hefur enn magnast og ekki síður áhyggjur af því hvaða áhrif greiðsluvandi þeirra kynni að hafa á fjármálafyrirtæki og stofnanir um allan heim sem hafa fjárfest í skuldabréfum fyrirtækjanna, að því er segir í Vegvísi Landsbankans.

Með þessum aðgerðum yfirtekur bandaríska ríkið allar eignir og skuldbindingar fyrirtækjanna tveggja. Hlutabréf fyrirtækjanna verða áfram skráð í kauphöll en réttur almennra hluthafa verður í reynd afnuminn og þeir munu standa fremstir í röðinni ef að tapi kemur en aftast ef greiddur er út arður. Ríkið öðlast jafnframt kauprétt á 80% almennra hluta á málamyndaverði.  Ríkið kemur einnig til með að kaupa ný skuldabréf útgefin af sjóðunum fyrir um 5 milljarða Bandaríkjadala á næstu vikum, en sú ákvörðun kom fjárfestum nokkuð á óvart, að því er segir í Vegvísi Landsbankans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK