Davíð segir að krónan muni ná sér

Davíð Oddsson seðlabankastjóri.
Davíð Oddsson seðlabankastjóri. mbl.is/Ómar

Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, sagði í þættinum Íslandi í dag á Stöð 2 í kvöld, að krónan muni ná sér á strik á nýjan leik og styrkjast, „því hún er komin langt handan við allt sem við myndum kalla jafnvægisgengi," sagði Davíð.

Davíð sagði að gríðarlegur óróleiki væri hvarvetna og það ríkti vantraust á hávaxtamiðlum og þeir færu lækkandi, þó ekki jafnmikið og krónan. Þá hefði verið vantraust á íslenska bankakerfið og það hefði líka áhrif á gjaldmiðilinn.

„Það er mikill og mjög undarlegur áróður í gangi (gegn krónunni) og ég held að hluta til séu menn að draga athyglina frá allt öðrum vanda. Sá vandi sem við erum að glíma við nú hefur ekkert með krónuna að gera," sagði Davíð.

Hann nefndi m.a. að Greining Glitnis hefði talað um vanda vegna Íslandsálagsins. „Þetta er afskaplega ósvífin yfirlýsing vegna þess að Ísland er skuldlaust land. En Ísland er ekki að fá lán á þeim kjörum sem það vill vegna bankaálagsins. Þannig að menn verða að hafa hlutina í réttu samhengi. Ísland er ekki vondur stimpill fyrir bankana. En í augnablikinu á Ísland erfitt með að taka lán vegna þess að menn óttast að Ísland þurfi kannski að bera ábyrgð á skuldum bankakerfisins. Þannig að það er til ákveðið bankaálag. Það er ekkert Íslandsálag til.“

Þá sagði Davíð, að atlagan að krónunni  væri afskaplega ógæfuleg og óskiljanleg í rauninni og menn ættu ekki að leyfa sér hana um þessar mundir. „Sjálfsagt er að ræða öll mál, gjaldmiðlamál, Evrópumál og þessháttar mál en menn eiga ekki að láta það rugla sig og gefa fólki til kynna að menn geti leyst úr einhverjum vandamálum sem við erum með núna með einhverjum töfraráðum af því tagi. Það eru lýðskrumarar af versta tagi sem þannig haga sér og maður hlýtur að hafa á þeim mikla skömm og mikla fyrirlitningu," sagði Davíð. 

Hann sagðist ekki geta séð fyrir séð það ástand að íslensk yfirvöld myndu ekki tryggja innlendar innistæður í bönkum. „Því ef þú gerir það ekki þá ertu búinn að tapa niður vilja manna til að spara í næstu 20-30-40 árin. Þannig að ég er sannfærður um það að menn mættu vera orðnir mjög aumir ef þeir myndu ekki tryggja það að íslenskir innistæðueigendur í bönkum hérlendis myndu ekki tapa sínum fjármunum. Ég sé ekki fyrir mér að það gæti gerst,“ sagði Davíð Oddsson. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK